26.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

6. mál, aðflutningsgjald

Framsögumaður (Jón Ólafsson):

Eg ætlaði að svara háttv. þm. Vestm. (J. M.). Hann spurði, hví tollhækkunin á tóbaki hefði ekki líka verið miðuð við 24. febrúar. Eg skal geta þess, að það kom líka til umtals í nefndinni, en henni þótti ekki ástæða til þess, því að tóbak — nema reyktóbak — er þess eðlis, að það geymist ekki lengi óskemt og því ekki hætt við, að það verði keypt í stórum stíl til lengri tíma, og að því er reyktóbak snertir þá kynni reyndar að hafa verið meiri ástæða til að taka það með, en það vegur þó varla mikið í þessu máli.

Því næst spurði h. þm. Vestm. (J. M.), hví nefndin hefði tekið til þennan dag (24. febr.) en ekki þann dag, sem lögin væru samþykt. — Það var af því, að nefndin leit svo á, að vel gæti svo farið, að menn, til að losast við þennan nýja háa toll, myndu innan þess tíma taka til sín birgðir frá útlöndum fyrir fleiri ár, já svo mikið, meira að segja, að það gæti nægt þeim alt þangað til vínsölubannið kæmist á 1911 eða 1912, og myndi tökin þá verða þau, að landssjóður hefði ekkert gagn af allri þessari tollhækkun á vínföngum. Eg vona því að allir viðurkenni, að sjá þurfi fyrir, að eigi verði á þann veg farið í kringum lögin.