06.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

6. mál, aðflutningsgjald

Ari Jónsson:

Eg er alveg samdóma nefndinni um breytingartillögur hennar, en vildi að eins athuga dálítið þau orð háttv. þm. Ísf., að hann hefði hugsað sér aðra breyttill., sem hann ef til vill kæmi fram með við 3. umræðu málsins. Eg er fullkomlega samdóma háttv. 4. kgk. þm. um það, að það er mjög óhyggilegt að komast inn á þá braut, að láta lög hafa áhrif á viðskifti manna áður en þau (lögin) verða til, eða að láta lög gilda fyrir sig fram. En breyting sú, sem háttv. þm. Ísf. mintist á, fer einmitt í þessa stefnu; fer alveg í sömu átt eins og það ákvæði frumvarpsins, sem nefndin vill breyta, en fer bara ennþá lengra. Því að ef tollaukinn væri lagður sem skattur á allar birgðir manna þegar lögin koma í gildi, væri öllum gert jafn rétthátt eða réttlágt undir höfði. Þá væri gengið ennþá lengra í því, að láta lög hafa áhrif á viðskifti manna áður en þau (lögin) verða til, heldur en gert er í frumv. eins og það er. Frumvarpið fer nú ekki lengra en það, að tollaukinn nær til þeirra manna, sem hafa ætlað að komast hjá honum með því að vera nógu fljótir til að panta; en ef slík breyting, sem háttv. þm. Ísf. stakk upp á, væri samþykt, næðu lögin líka til þeirra manna, sem engan slíkan tilgang hafa haft, og ef til vill keypt vörur sínar fyrir mörgum mánuðum eða jafnvel missirum. Þá væri síðari villan verri hinni fyrri.