11.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (1333)

6. mál, aðflutningsgjald

Ráðherrann (H. H.):

Hin háttv. nefnd hefir lagt það til, að gerð verði breyting á ákvæðunum um súran berjasafa. Mér virðist þetta mjög óheppilegt af nefndarinnar hálfu, því að þessi súri safi á í raun og veru ekki að vera áfengur; hitt er annað mál, að dæmi munu til þess að kaupmenn hafi blandað hann áfengi, og þannig misbrúkað hann.

Það er þess vegna alls ekki rétt, að tolla þennan safa, sem áfengan drykk. Miklu réttara — eins og samþykt hefir verið áður bæði hér og í efri deild — að leggja toll á hann, sem sérstaka tollvöru. Mundi þá sízt fjarri, að hafa 30 aur. toll, miðað við aðra kolonial-vöru. Mér virðist blátt áfram, að tillögur nefndarinnar nái ekki nokkurri átt. »Súr berjasafi« er í rauninni ekki annað en safi úr berjum, sem ekki hefir verið látinn sykur í og ekki varinn lofti, svo að hann hefir þess vegna súrnað. En þessi vara er notuð og notandi í ódýrar súpur, sem almenningur neytir. Einnig má nota þennan safa saman við vatn til svaladrykkjar, eins og sýru. Að leggja geypi-toll á þessa vörutegund, er sama sem að fyrirmuna fátæku fólki að nota hana, og til þess virðist mér ekki ástæða, þó að einstöku angurgapar hafi misbrúkað hana til vörufalsana. Hér er ekki um áfengan drykk að ræða, nema fölsun komi til, þess vegna má ekki tolla þetta sem áfengisdrykk.

Fyrir því álít eg sjálfsagt, að ákvæði þau, sem að gerð hafa verið áður um þetta efni, bæði hér og í efri deild, séu látin halda sér, og enginn ruglingur gerður þar á.

Hitt er góðra gjalda vert, að nefndin hefir séð sig um hönd og komið fram með breyt.till. um það, hvenær lögin öðlist gildi, því að hinar fyrri tillögur komu að ýmsra hyggju vel nærri ákvæðum stjórnarskrárinnar, þar sem farið var fram á, að lögin öðluðust gildi, áður en konungsstaðfesting lægi fyrir. En þó verður ekki sagt, að breyt.till. sé heppileg, af því að ekki verður hjá því komist, að hún reki sig á ákvæðin í toll-lögunum, þau ákvæði, að tollurinn falli í gjalddaga jafnskjótt og skip það hafnar sig, er með tollvörurnar fer. Þá getur viðtakandi lögum samkvæmt fengið fullnaðarkvittun fyrir tollgreiðslunni.

Á tímabilinu frá 12. marz og þangað til lögin öðlast gildi, getur hver og einn greitt hinn venjulega toll og fengið fullnaðarkvittun fyrir, af því að lögin (nýju) eru þá ekki í gildi.

Það yrði að skoðast sem sérstakt skattgjald, en ekki aðflutningsgjald, sem að þannig væri lagt á vörurnar eftir á.

Það er mitt álit, að alt of mikið sé gert úr þörfinni á undantekningarákvæðum um birgðir þær, sem komnar eru hingað áður en lögin öðlast gildi, og eg þykist viss um, að þær umræður, sem verið hafa nú um hríð hér á þinginu um þetta atriði, séu nægar til þess, að ná tilganginum, sem sé að hindra aðflutning yfir skör fram, því menn hafa ekki þorað að eiga undir því, að panta neitt til muna um fram hið vanalega, meðan óafgert var um þetta efni. Það er því líklegt, að mjög lítið áfengi sé á leið hingað til lands nú.

Það virðist því vera næsta óþarft, að vera í þessu skyni, að reka sig á almenn lagafyrirmæli, og toll-lögin sérstaklega.