11.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (1334)

6. mál, aðflutningsgjald

Framsögumaður (Jón Ólafsson):

Eg vil leyfa mér, að gera nokkrar athugasemdir út af ummælum hæstv. ráðh. — Vil eg fyrst víkja máli mínu að því, er hann sagði um súra safann. Það er ekki rétt, að hann sé blandaður áfengi hér; eg hefi að minsta kosti aldrei heyrt þess getið. En hitt er áreiðanlegt, að töluvert áfengi er í þessum safa, og hann verður áfengur við geymsluna — við að liggja. Styrkleikinn getur orðið 7—8°, og því full ástæða til, að súr safi sé tekinn inn undir tollhækkunar-ákvæðin.

Í annan stað verður víst naumast sagt með sanni, að hægt hafi verið, að fara mildilegar að þessu, ef safinn verður gerður tollskyldur á annað borð. Hitt mun rétt vera hjá hæstv. ráðh., að þessi ákvæði reki sig á tolllögin (að . . . falli í gjalddaga, þegar á land sé komið o. s. frv.), en jafn áreiðanlegt er þó það, að það er meira að segja algild regla, að hin eldri lögin verða að víkja fyrir hinum yngri þótt ekki sé berum orðum fram tekið, að þeim sé breytt. Það ber enga nauðsyn til að telja upp, hverjum eldri laga-ákvæðum sé breytt með nýjum lögum, þótt farið sé að tíðka það hin síðari ár; lögfræðingarnir geta ávalt séð það og dómstólarnir skorið úr því. — Mótbáran um greiðslu tollsins og fullnaðarkvittunina er heldur ekki réttmæt, enda var háttv. 1. þingm. Eyf. (H. H.) áður samþykkur ákvæðinu um tímann (24. febr.), og fæ eg ekki betur séð, en að ástæðan hafi verið jafn góð og gild, þá sem nú.

Hæstv. ráðh. (H. H.) gat þess, að ef skip kæmi með tollskyldar vörur til einhvers manns, þá fengi hann þegar fullnaðarkvittun fyrir greiðslunni.

En hér er öldungis eins ástatt: ef skip kemur á Hornafjörð daginn eftir að lögin hafa öðlast gildi, þá er heimtaður tollur eftir lögunum — og gefin fullnaðarkvittun fyrir. Munurinn er því ekki mikill.

Þetta getur átt sér stað í mörgum kauptúnum, þar sem síma verður ekki við notið.

Mér virðist ekki, að nægar ástæður hafi komið fram til þess, að deildin hafni tillögunum — og vona eg, að hæstv. ráðherra (H. H.) verði ekki mótfallinn staðfestingu þessara laga, enda þörfin brýn að auka tekjur landssjóðs. Þó að mér sem minni hluta manni mætti vera það flokkshnykkur að fá sem mest á þessu tímabili, þá vona eg samt, að enginn flokksbróðir minn meti minna hag landsins sjálfs eða láti aðrar ástæður verka á sig í þessu efni.

Það má geta þess, að það var sagt við mig nýlega, að við værum ekki eigingjarnir minni hluta menn, að vera að búa í haginn fyrir hina komandi stjórn. Þetta er að vísu satt, enda lítum við að sjálfsögðu þar eingöngu á hag landsins.

Nefndinni þótti og réttast, að láta tollhækkunina einnig ná til allra vörutegunda; en ekkert þurfti þó að búa undir eða vera bak við, þótt til áfengisins eins hefði komið.

Reyktóbak þolir t. d. ekki geymslu og um vindla getur ekki verið að ræða í þessu efni.

Hæstv. ráðh. (H. H.) gat þess og lagði mikla áherzlu á það atriði, að frumv. ræki sig á eldri lög.

En eg veit ekki betur, en að það sé fremur nýr siður á þinginu, að telja upp, hvað falla skuli úr gildi af hinum eldri lögum, er víkja verða fyrir hinum nýrri.

Árekstur þarf því enginn að verða.