26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í B-deild Alþingistíðinda. (1342)

7. mál, háskóli

Jón Magnússon:

þótt eg skrifaði undir nefndarálitið í máli þessu athugasemdalaust, þá var það ekki af því, að eg væri sannfærður að rétt eða sjálfsagt væri að koma málinu fram á þessu þingi, eða eg væri að öllu leyti ánægður með nefndarálitið.

Eg skal játa það, að mér finst nefndin hafa hrapað nokkuð að þessu, að samþ. frv. óbreytt að minsta kosti. Nefndinni fanst þó að frumv. gæti staðið til bóta. Og úr því að háskólalögin hvort sem er eiga ekki að koma til framkvæmda þegar, heldur þá fyrst er fjárhagur landsins leyfir það, þá sýnist engin brýn nauðsyn vera til þess að afgreiða málið frá þessu þingi, en það mætti vel bíða næsta þings og þá væri tími til þess að gera frumv. enn betur úr garði.

Það er aðgætandi, að hér er að tala um stofnskrá fyrir háskóla, stofnskrá, er ekki á að þurfa að breyta, jafnvel þótt aldir liði, og þótt háskólinn breytist sjálfur allmikið.

Vér vitum allir, að þótt fjárhag landssjóðs megi góðan telja, þá er fjárhagur landsins sem stendur þannig, að varla eru ráð á því að bæta við miklum gjöldum á almenning til þess að stofna háskóla, en í rauninni meiningarlaust að samþ. þetta frv., ef það á ekki að koma til framkvæmda bráðlega.

Um það sem háttv. framsm. (J. Þ.) sagði, að ekki væri mikið hlynt að hinum æðri mentastofnunum hér á landi, skal eg ekki vera fjölorður. Eg held þó að mér sé óhætt að fullyrða það eitt, að þær séu í allgóðu lagi, og þeirra vegna sé engin nauðsyn til þess að vinda bráðan bug að því að stofna háskóla. Og það sem hann sagði um að húsakynni skóla þessara væru slæm, þá verður ekki bætt úr því, þótt frv. yrði samþ., með því að þar er als ekki gert ráð fyrir neinum byggingum.

Eg sé enga ástæðu til þess, frekar en háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), að útiloka læknakandídata frá háskólanum í Kaupmannahöfn frá embættum hér á landi, þótt þeir hefðu stundað nám við Hafnarháskóla. Læknisfræðin er almenn vísindagrein, sem menn geta stundað eins vel í Höfn og hvar annarsstaðar sem vera vill, jafnvel austur í Kína.

Eg sé ekki ástæðu til að orðlengja um þetta. Býst við því að frv. eigi að ná fram að ganga á þessu þingi, og mun eg sætta mig við það.