26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í B-deild Alþingistíðinda. (1343)

7. mál, háskóli

Framsögumaður (JónÞorkelsson):

Eg skal nú taka það fram, að þótt búningur frumv. þessa sé ekki svo góður sem ákjósanlegt væri, þá er hann þó ekki stórum verri en búningur allra laga vorra annara, alt í frá 1874. Það er varla hægt að segja annað um þá lagasmíð, hvað mál og stíl snertir, en að hún sé ómynd, ef í harðan reikningsskap skyldi ganga. Bæði eg og aðrir höfum einkum fundið til þess, að þetta frumv. skyldi ekki geta verið bærilegt að máli og orðfæri, því að það er um þá stofnun, sem ætlast er til að verði fóstra, mær móðir (alma mater) alls þess, sem bezt er og þjóðlegast á landi hér í máli og menningu.

Það er að vísu rétt, sem háttv. þm. Vestm. (J. M.) sagði, að frumv. geri ekki ráð fyrir neinum byggingum. En hitt leiðir af sjálfu sér, að allar deildir háskólans verða að fá húsnæði, jafn-skjótt sem við verður komið eftir að háskólinn tekur til starfa.

Hvað snertir þetta skilyrði þm. Vestm. (J. M.) og N.-Ísf. (Sk. Th.) um það að háskólinn í Kaupmannahöfn hafi rétt til að útskrifa lækna handa okkur, þá er mér spurn: Hvers vegna má þá ekki hver annar góður háskóli, hvar sem hann er, hafa rétt til þess sama? En eg álít alt slíkt, eins og nú á stendur, skaðlegt fyrir oss. Annars er sú hreyfing, heyri eg sagt, komin fram, að þeir, sem stunda nám við einhvern háskóla á Norðurlöndum, hafi rétt til embætta hvar sem er um öll Norðurlönd. Ef slíkt samband kæmist á milli háskólanna, þá er líklegt að hér mundi þá nokkuð farið eftir því.

Eins og nú hagar til, sé eg ekki annað en að það sé hreint og beint banatilræði við háskólastofnun vora, að nokkrum öðrum háskóla sé leyft að búa til embættismenn handa okkur. Vér ætlum að verja stórfé til háskóla hjá oss, en leyfum þá jafnframt annari samskonar stofnun í öðru ríki að keppa við okkur. Eg fæ ekki séð betur en það sé óhafandi og óþolandi.

Þótt nú frv. sé ekki eins vel úr garði gert og það ætti að vera, ræð eg þó óhikað deildinni til þess að samþ. það óbreytt, því að það er engin frágangssök. Hitt er annað mál, að frv. þetta hefði átt að geta verið þolanlega úr garði gert, eftir fyrst að vera samið af þeim mönnum, sem ástæða var til að álíta að eitthvað kynnu í íslenzku máli, og þar eftir að hafa gengið í gegnum 1. stjórnarskrifstofu, þar sem einmitt h. þm. Vestm. (J. M.) var skrifstofustjóri. Það er því nokkuð seint fyrir hann að koma með heilræði sín nú. Hann hefði unnið meira gagn með því að átta sig fyr í þessu máli.