28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í B-deild Alþingistíðinda. (1352)

7. mál, háskóli

Framsögumaður (Jón Þorkelsson):

Eg ætla að ítreka það, að menn taki því heldur eftir því og gefi því gaum, að það er nú hér í dag ætlun og ásetningur sumra þingdeildarmanna að drepa þetta merkilega mál í hefnd fyrir það, að »Thoremálið« féll, og þeim þóttu ýmsir ekki fylgja því nógu fast, að þeirra skapi. Svo ótrúlegt, sem þetta er, þá er það þó satt, því að einn af deildarmönnum hótaði mér því áðan einslega. Vil eg að þetta sjáist í þingtíðindunum til athugunar og eftirþanka í framtíðinni.

Eg ætla ekki að kippa mér upp við það, þó að hinn háttv. 1. þm. Húnv. (H. G.) lýti mig fyrir það, að mér verði það stundum að nefna orð eins og »sjálfstæði« og »þjóðerni«, jafnvel í sambandi við það, sem honum finnast vera smámál. Eg hefi komist að raun um það, að við leggjum hvor

um sig alt annan mælikvarða á mál. Mér þykja það oft stórmæli, sem honum finst lítils um vert, og svo er ekki ólíklegt, af því, sem fram hefir komið, að honum þyki minna varið í »sjálfstæði« og »þjóðerni« en mér. Og þá er skiljanlegt, að þessi orð hneyksli hann meira en mig.