28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (1354)

7. mál, háskóli

Bjarni Jónsson:

Það voru undarlegar ákærur, sem háttv. flutningsm. rökstuddrar dagskrár (H. G.) bar hv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) á brýn, að hann hefði orðin »sjálfstæði« og »þjóðerni« að glamuryrðum með því að minnast á þau í sambandi við háskólamálið. — Eg fæ nú ekki séð, að slíkt hafi við nokkur minstu rök að styðjast, því að ef nokkuð er þjóðlegt, þá er það það, að menningarstofnanir vorar séu í landinu sjálfu, svo að þjóðin sjálf hafi tök á og umsjón með þeim stofnunum, sem undirbúa starfsmenn hennar undir það starf, sem þjóðin fær þeim að vinna, eða telur háttv. 1. þm. Húnv. (H. G.) það heppilegt og vel sæmandi þeirri íslenzku þjóð, að hún sendi sína beztu sonu suður til Hafnar, til að lifa þar við sult og seyru í 6—7 ár og drekka í sig danskar skoðanir. Að svo margir Íslendingar hafa ekki eyðilagst og skemst Íslandi á þeirri veru, kemur til af því, að íslenzka þjóðin er svo gott kjarnafólk, svo sjálfstæð í hugsunum og elsk að sínu landi. — Það situr því illa á hv. 1. þm. Húnv. (H. G.), að vilja leggja stein í götu þessa máls og verða því þannig að falli.

Háttv. sama þm. (H. G.) gleymdist að geta þess, að þegar hann var að tala um það, að nefndinni hefði þótt slæmur frágangur á frumv., að þá átti nefndin að eins við orðalag en ekki efni. Mér t. d., sem vil vera vandur að íslenzku máli, þótti illa farið, að hafa útlend heiti á kennurunum og hefði viljað breyta því, en vil þó ekki gera það nú að kappsmáli, til að tefja ekki fyrir málinu. — Að fé verði eigi veitt á fjárlögunum að þessu sinni til háskólans, er ekkert því til fyrirstöðu, að lög þessi verði samþykt. Það er líka all-undarlegt, þar sem salur þessi sí og æ hefir kveðið við af miklum sparnaðarhljóm, að heyra menn nú leggja til, að mál þetta skuli nú niður falla, eftir að það með miklum tíma og kostnaði hefir verið látið ganga í gegn um deildirnar, — það kostar þó sannarlega ekki svo lítið; en að málið verði betur undirbúið seinna er ekkert annað en tómur hljómur og hvellandi bjalla, og þeir sem vilja fella þetta mál gera sitt til, að rýra virðing og sæmd stjórnar vorrar og flokks. Þetta segi eg til þeirra manna, sem heyra til sama flokk og eg, enda þótt eg ekki sé með þessu máli af þeirri ástæðu.

Eg vona, að mönnum skiljist af því, sem eg nú hef sagt, að það er vansæmandi að fella málið.