28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

7. mál, háskóli

Sigurður Sigurðsson:

Það er undarlegur hiti í mönnum út af þessu máli, og því undarlegri er hann, þegar þess er gætt, að meiningin með rökstuddri dagskrá, sem komin er hér fram, er alls ekki að fella málið, heldur fresta því. Og hvað er annars á móti frestun þessa máls til næsta þings, í þar sem þó er gert ráð fyrir, að lögin um stofnun háskóla komi í rauninni ekki til framkvæmda fyr en fé er veitt til hans á fjárlögunum. Hvernig undirbúning þetta mál hefir fengið, skal eg ekki fara mikið út í nú, en heyrt hefi eg það sagt hér í deildinni, að málið á háskólafrumv. sé ekki sem bezt. En það á þó óneitanlega betur við og er æskilegt, að þegar verið er að semja lög um háskóla, sem á að kenna meðal annars heimspeki og málfræði þá sé málið á þeim lögum nokkurn veginn viðunanlegt. Annars verð eg að lýsa því yfir, að eg mun greiða atkv. með framkominni rökstuddri dagskrá af þeim ástæðum, er nú skal greina,-

1. að mál þetta er eigi svo vel undirbúið sem skyldi, meðal annars hvað málið á frumv. snertir, eins og áður hefir verið tekið fram.

2. að það hefir í för með sér stofnun margra, nýrra og óþarflega margra embætta.

3. að það bakar landssjóði þegar lögin koma til framkvæmda alt að 20,000 kr. aukin útgjöld í embættislaun handa kennurum skólans.

4. að málið hefir ekki í þeirri mynd, sem það hefir nú, verið borið undir þjóðina.

5. að gert er ráð fyrir því, bæði í sjálfu háskólafrumv. og eins í frv. um laun háskólakennaranna, að háskólinn verði eigi reistur á næstu tveim árum.

Af þessum ástæðum greiði eg atkv. með rökstuddri dagskrá, sem komin er fram, þrátt fyrir það, þótt eg að öðru leyti sé hlyntur stofnun háskóla hér á landi, þegar ástæður okkar og efnahagur leyfir það.