06.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

6. mál, aðflutningsgjald

Ráðherra (H. H.):

Eg ætla ekki að verja þá viðbót, sem frumv. fekk í Nd., að hún er óvanaleg og getur verið varhugaverð. En eg sé þó ekki, að hér sé neitt alveg spánnýtt á ferðinni; eg vil t. d. nefna bitterskattinn á fyrirliggjandi birgðir, sem samþ. var á þingi 1907; það var að forminu dálítið öðruvísi, en útkoman svipuð í reynd; það var lagt gjald á birgðir, sem búnar höfðu verið til á undan lögunum, meðan ekkert gjald var á slíkri framleiðslu. (L. B. Bj.: Það var skattur en ekki tollur). Eg kannast fúslega við það, að það er ekki heppilegt að innleiða þá lögvenju, að láta lög verka aftur fyrir sig. Það er einnig rétt hjá háttv. 5. kgk. þm., að tollurinn er fallinn í gjalddaga þegar skip kemur í höfn.

Eftir því sem mál þetta er nú komið, held eg, að þörfin á þessari viðbót háttv. Nd. fari að verða mjög lítil, því að menn hafa þegar við umr. um hana hér í þinginu, sem talsíminn jafnóðum hefir borið fréttir um út um alt land, fælst frá því að panta svo mikið, að landsjóður þurfi nein örþrifaráð að taka þess vegna. Eg held því, að nægilegt sé að lög þessi öðlist gildi á staðfestingardegi, ef þau komast að eins til konungs með fyrsta skipi.