28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (1360)

7. mál, háskóli

Hálfdan Guðjónsson:

Eg ætla einungis að segja örfá orð, af því skorað var á mig að gera það, en annars er engin ástæða fyrir mig að ræða þetta meira, því eg er þegar búinn að skýra afstöðu mína til þessa máls. Hnjóðsyrðin, sem til mín hefir verið kastað, virði eg að engu. En eg vildi enn ítreka það, að á frumv. eru miklir gallar og agnúar. Þegar eg tók það sama atriði fram rétt áðan, bar eg engan minni eða mjórri fyrir því, en sjálfan framsm. málsins (J. Þ.). Eg færði þá til rökstuddar ástæður, er ekki hlýðir að endurtaka, því mér fundust þær nógu skýr bending til að sannfæra hina áköfustu fylgismenn frumv. En til þess að hægra væri að gera mönnum til hæfis hefi eg breytt dagskránni, og til þess að auka fylgi hennar. Það er ekki svo frekt að orði komist að ástæða sé að hafna henni. Það er augljóst, að ekki er hægt að framkvæma þetta, fyr en fé fæst á fjárlögunum til þess. Eg er algerlega mótfallinn þeirri reglu, sem þingið virðist vera að taka upp að samþ. lög, sem ekki er ætlað að ganga í gildi fyr en löngu seinna, slík lög ættu að bíða þess tíma, að þau kæmust í framkvæmd, eða væri að minsta kosti ætlað það og fé væri til þess veitt á fjárlögum. Það er alt öðru máli að gegna með lög, eins og t. d. aðflutningsbannslögin. Eg hlýt að vera þessu mótfallinn, af því þessi aðferð er svo óeðlileg og glapræðisleg. Það er ekki talið miklu skifta að samþ. lög, sem engan kostnað hafi í för með sér. En svo er þegar á næsta þingi talið sjálfsagt að leggja fé fram til þess að framfylgja lögunum, fyrst þau séu til orðin. Slíkri reglu mæli eg fastlega á móti. Ef næsta þingi virðist ekkert því til fyrirstöðu, hvað fjárhaginn snertir, að leggja fram fé, til þess að háskólinn komist á laggirnar, þá hygg eg, að ekki mundi vandkvæðum bundið, að fá frv. þetta samþ. — og þá í þeim búning, er allir mættu vel við una. Hitt skil eg ekki, hvað því liggur nú á, þar sem ekki er búist við, að lögin komist til framkvæmda að svo stöddu. Hlýt eg því að telja þau úrslitin heppilegust, að samþ. nú hina rökstuddu dagskrá um málið.