28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (1361)

7. mál, háskóli

Hannes Hafstein:

Háttv. 1. þm. Húnv. (H. G.) gat ekki bent á í hverjum atriðum frumv. þessu sé ábótavant, að þeirra hluta vegna þyrfti að fresta samþ. þess.

Það er engan veginn nýtt að setja það ákvæði í lög, sem háttv. Ed. hefir bætt inn í frv. þetta, að lögin komi eigi til framkvæmda fyr en fé sé veitt til þess á fjárlögum. Þetta var einnig gert í lagaskólalögunum frá 1903 o. fl. Eg hefði að vísu óskað, að þetta ákvæði hefði ekki verið sett inn í stjórnarfrv., en samt verð eg að segja, að betra er að lögin séu samþ. með þeim annmarka, heldur en að samþ. laganna sé frestað um ótiltekinn tíma. Samþykt og staðfesting lagaskólafrv. hafði þá afleiðing þrátt fyrir samskonar ákvæði, að stjórn og þing áleit sér skylt þegar á næsta þingi 1905, að undirbúa það að lögin kæmust í framkvæmd, með því að veita fé til undirbúnings væntanlegum forstjóra, og næsta þing þar á eftir setti lögin í framkvæmd. Líkt vona eg að yrði hér, að kostnaðurinn sem með þarf, yrði tekinn þegar upp á næsta fjárlagafrumv.

Eins og frumv. nú liggur fyrir, á það sér vísa staðfesting konungs, því að hann er búinn að samþykkja að það sé lagt fyrir þingið. Sé því hafnað nú, þá er það samþykki úr sögunni, og ómögulegt að vita með vissu, nema einhverjir erfiðleikar kynnu að rísa upp, er gerðu það örðugt að fá aftur samþykki konungs fyrirfram eða staðfesting eftir á, ef búið væri að hafna málinu í þetta sinn, og sýna með því, hve rík alvaran hefir verið hjá oss Íslendingum með þessari gömlu kröfu. Væri þá vel að verið, ef þetta þing bætti því við önnur afrek sín til sjálfstæðis Íslands og þjóðþrifa, að bana háskólamálinu, þegar það er þannig á veg komið, sem nú er það.