28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (1362)

7. mál, háskóli

Hálfdan Guðjónsson:

Þeirri aths. vildi eg beina til háttv. andmælenda minna, að háskólamálið hefir ekki legið fyrir þjóð né þingi fyr en nú í þeirri mynd, er það nú hefir; skal eg sérstaklega taka þetta fram að því er til útgjaldanna kemur í sambandi við frumv. þetta, hvort heldur litið er á kennarafjöldann eða launahæðina. Hitt veit eg vel, að oft hefir áður legið fyrir þinginu frumv. í svipaða átt, t. d. um stofnun lagaskóla, landsskóla o. s. frv. En stofnun lagaskólans réð að miklu leyti bót á þörfinni, sem þau frumv. spruttu af. — Fyrir því fæ eg með engu móti séð, að nauðsyn reki til að ráða nú þessu máli til lykta í frumv.formi, eða að það sé þinginu á neinn hátt til vansæmdar, þótt samþykt frumv. bíði þess, að frumv. sé betur úr garði gert og fé fyrir hendi, er fært sé að leggja stofnun þessari.