18.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í B-deild Alþingistíðinda. (1373)

13. mál, styrktarsjóður handa barnakennurum

Ráðherrann (H. H.):

Lagafrumvarp þetta er framkomið að ósk stjórnar hins íslenzka kennarafélags, er síðastliðið sumar átti með sér aðalfund og var falið að gangast fyrir því, að slíkt frv. yrði lagt fyrir næsta alþingi.

Menn hafa nú á síðari árum farið að gefa sig að barnakenslu sem aðalatvinnu; hefir þannig myndast sérstök stétt barnakennara, eða að minsta kosti vísir til hennar.

Eins og kunnugt mun vera, eru kjör barnakennara mjög erfið, launin afar-lítil, og er því ekki nema sanngjarnt, að hagur þeirra sé að nokkru bættur.

Framlag það, sem beiðst er eftir af landssjóði, 5000 kr. í upphafi, og síðan 1000 kr. árlega, er svo hóflegt, að varla verður sagt að það muni landssjóð neinu.

Annars er lagafrumv. þetta að mestu samhljóða frumv. því, sem stjórn kennarafélagsins hefir samið og sent stjórnarráðinu.

Um leið og eg legg þetta frumvarp fyrir hina háttv. þingd., leyfi eg mér að gefa því beztu meðmæli mín.