27.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (1377)

13. mál, styrktarsjóður handa barnakennurum

Framsögumaður (Hálfdan Guðjónsson):

Eins og háttv. þingdeild veit, þá er mál þetta ekkert stórmál, en frumv. þetta gengur áreiðanlega í rétta átt, og miðar til þess að bæta hag stéttar, sem er fjölmenn og væntanlega verður vinsæl meðal vor; stétt þessi eru barnakennararnir; það er ekki hægt að tryggja þeim ellistyrk með eftirlaunum, eins og öllum þorra embættismanna þjóðarinnar og þess vegna hafa þeir sent stjórninni þetta frumv. og það gengur í þá átt að tryggja þeim styrk, er þeir eru hættir kenslu og orðnir fjárþurfar.

Krafa sú er frumv. gerir er hófleg, og nefndin hefir því lagt það til, að það yrði samþ. að mestu óbreytt; að vísu er farið fram á dálitla útgjalda viðbót úr landssjóði, en hún er svo tiltölulega lítil, að nefndin hikar ekki við, að leggja hið bezta fram með frumv.

Eg skal svo ekki fjölyrða meira um málið að sinni, og vona að það fái að ganga gegn um háttv. deild.