16.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (1394)

9. mál, ellistyrkur

Framsögumaður (Jón Magnússon):

Eg hefi heimild þeirra 3 nefndarmanna, sem eg hefi haft tal af, til að lýsa yfir því, að nefndin getur ekki fallist á breyt.till. háttv. 1. þm. Skagf. (Ól. Br.).

Það væri ef til vill nokkuð til í því, að takmarkið ætti ekki að setjast neitt að ofan, ef um reglulegan tryggingarsjóð væri að ræða og féð væri nóg. Fyrst um sinn er þó ástæða til að halda 60 ára aldursmarkinu, því að í raun og veru er sjóðurinn ekki eiginlegur tryggingarsjóður, nema að nokkru leyti, og sérstaklega mundi hann ekki koma að verulegu gagni, — meðan honum safnast eigi fé að mun — nema starfsvið hans sé takmarkað, og hygg eg að það sé rétt, að takmarka það einmitt við 60 ára aldur, enda veit eg ekki betur en að þetta sé regla, sem fylgt hefir verið hér, að minsta kosti þar er styrkveitingar úr alþýðustyrktarsjóðunum hafa þótt reynast vel; að minsta kosti er það svo, þar sem eg þekki til. Mér finst eðlilegt, að gjaldskyldan nái ekki nema til viss aldursmarks. Gjaldendur, sem goldið hafa frá 18—60 ára aldurs hafa sannarlega leyst af hendi sína skyldu.

3. breyt.till., um að setja niður gjald kvenna, þótti nefndinni engin ástæða að sinna. Nefndin var jafnvel í efa um, hvort ekki væri rétt að hækka gjaldið upp í það, er stjórnin hafði lagt til um, því að það er vissulega ekki til of mikils mælst, að heimta 1 kr. á ári gegn því, að gefa von um að fá styrk í ellinni. Vinnukvennakaup hefir hækkað svo mikið á síðustu árum, að sú stétt þolir miklu betur álögur en áður.

Um 2. breyt.till. skal eg vera fáorður. Það er varla vert að vera að senda háttv. Ed., frumv. aftur vegna þessa atriðis eins, enda virðist ekki ósanngjarnt, að þeir menn, sem víst er um að ekki þurfa að taka til sjóðsins, séu ekki heldur neyddir til að gjalda í hann, með því að hann verður þó að teljast tryggingarsjóður að nokkru leyti.

Eg vil því ráða háttv. þingdeild til að samþ. frumv. óbreytt.