05.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (1399)

10. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Framsögumaður (Bjarni Jónsson):

Það er að margra viturra manna hyggju ilt, að mikið fé fari úr landi voru til erlendra tryggingarfélaga, og nefndin hefir öll skipast að því, að brýna nauðsyn beri til, að sem flest verði félögin hér og að sem mest fé renni í innlendan tryggingarsjóð.

Þetta mál er áður kunnugt, því að háttv. forseti deildarinnar og formaður nefndarinnar (Ó. Br.) hefir haldið því fram á undanförnum þingum.

Þeir menn, er um málið hafa fjallað, telja þetta nauðsynjamál fyrir skip, fiskiskip og flutningaskip, sökum þess, að það sé einn þáttur af sjálfsögðu starfsviði voru, að flytja sem flest slík félög inn í landið.

Læt eg nægja að benda á þessa aðalástæðu, en mun við 2. umr. gera nánari grein fyrir þeim breytingum á frv., sem nefndin telur nauðsynlegar, áður það verði samþykt sem lög.

Vil eg svo að eins biðja háttv. deild, að leyfa frv. að ganga til 2. umr.