05.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (1406)

14. mál, meðferð skóga, kjarrs o. fl.

Sigurður Sigurðsson:

Eg efast ekki um, að frumv. þetta sé komið fram af góðum vilja, og í þeim lofsverða tilgangi, að hjálpa skógræktinni hér á landi. En hitt dylst mér ekki, að sum ákvæði í frumv. eru varhugaverð og því nauðsynlegt, að það sé athugað. — Eg get ekki betur séð, en að það bezta í frumv. þessu felist í 1. gr. laga frá 22. nóv. 1907, um skógrækt og varnir gegn uppblæstri, en að flest ákvæðin, er talist geti ný, séu að minsta kosti töluvert athugaverð. Eg vil t. d. leyfa mér að benda á, að mér þykir það einkennileg ákvæði, að skógeigendur skulu skyldaðir til þess með lögum, að fylgja þeim er koma til þess að skoða skógana. Eg hef aldrei orðið þess var, að menn séu tregir til þess að fylgja vegfarendum, og sízt þeim, sem koma til þess að leiðbeina.

Þá er það og tekið fram í frumv., að mönnum sé skylt að leyfa skógræktarstjóra og skógarvörðum að fara umtölulaust yfir girt land, svo sem tún og engi; en slík ákvæði virðast mér gersamlega óþörf. Svona löguð ákvæði virðast benda á mjög mikinn ókunnugleika á íslenzkri gestrisni og hvernig högum er háttað hjá oss. — Það er eins og frv. kæmi frá manni, sem hér væri ókunnugur öllum ástæðum og staðháttum.

Samkvæmt frumvarpi þessu mega skógræktarstjóri og skógarverðir auka myndugleika sinn með því, að kalla hreppstjórann sér til fylgdar, ef þeim sýnist. Þannig lagað ákvæði þykir mér einkennilegt og þýðingarlítið að setja í lögin, jafnframt og það getur freistað þessara háu herra til þess, að ganga lengra en vel á við.

Hið bezta í lögum þessum er heimild landsstjórnar til þess að mega kaupa svæði til verndunar og ræktunar skógi.

Af því að málið er þýðingarmikið, og eg held, að það sé mörgum þingmönnum kært, þá vil eg leyfa mér, að stinga upp á því, að skipuð sé 5 manna nefnd í það.