08.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

6. mál, aðflutningsgjald

Ágúst Flygenring:

Háttv. þm. V.-Sk. hélt því fram, að það væri til fordæmi fyrir því í íslenzkri löggjöf, að láta ný tolllög eða skattalög gilda um birgðir, sem til eru þegar lögin verða til, og þetta fordæmi væri lögin um gjald af innlendri vindlagerð og tilbúningi á bitter frá 1907. Útaf þessu vil eg leyfa mér að gefa nokkrar upplýsingar, sem sýna að þar stóð alt öðru vísi á en nú. Í tolllögum fyrir Ísland 8. nóv. 1901 var lagt aðflutningsgjald á bitter. En tilgangurinn náðist ekki af því, að sá, sem mestan seldi bitter hér landi þá, fór jafnharðan að búa hann til í landinu sjálfu, þegar tolllögin gengu í gildi, og slapp þannig við að greiða allan toll, en hækkaði þó verðið sem tollinum svaraði og stakk honum þannig óbeinlínis ásamt gróðanum í sinn eigin vasa. Sumarið 1907, þegar stjórnin lagði frumv. um sölutoll á bitter fyrir þingið, var þegar búið að flytja inn í landið efni í bitter og »fabrikera« svo mikið, að birgðirnar voru til fjölda margra ára. Eg þarf ekki að geta þess í hverju skyni þessar feikna stóru birgðir voru búnar til þá. Þá var því um ekkert annað að gera, en leggja skatt á birgðirnar, eða láta manninn sleppa við allan skatt að öðrum kosti. Kringumstæðurnar voru þannig alt aðrar þá en nú, því að tilgangi laganna varð alls ekki náð á annan hátt. Auk þess sem um var að ræða svo gagnslausa og jafnvel skaðlega vörutegund, sem bitteressens er.

Í annan stað vildi eg aðeins minnast á þessa ívilnun, sem á að liggja í niðurlagi breytingartillögunnar, þar sem talað er um að veita megi áreiðanlegum kaupmönnum 6 mánaða frest á gjaldinu. Eg veit ekki hvað þetta ákvæði á að þýða, því að eftir lögunum um tollvörugeymslu og tollgreiðslufrest, má veita ársfrest á gjaldinu. Eg sé ekki betur en að ákvæðið sé þýðingarlaust.

Annars er eftir almennri réttarmeðvitund alveg rangt, að leggja nýjan toll á vörur, sem búið er að flytja inn og búið er að borga lögboðinn toll af áður. Eg er móti þessu ákvæði, af því að það er blátt áfram ranglátt, en ekki af því, að mér sé svo sérstaklega ant um þessa tvo menn, sem sagt er að hafi fengið áfengisvörubirgðir í síðastl. mán., heldur af því, að þeir eiga eins og aðrir menn fullan rétt á, að fjárhagslegum kringumstæðum þeirra sé ekki þröngvað með rangindum og að ástæðulausu. Slíkt verður ekki varið, hver sem í hlut á, og sízt ætti alþingi að gjöra sig sekt í því.