15.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (1413)

14. mál, meðferð skóga, kjarrs o. fl.

Hannes Hafstein:

Það er sérstaklega eitt orð, sem eg er óánægður með í till. nefndarinnar og það er orðið að »rífa«, um það hvernig taka megi hrís af jörðu. Það var meining frumv. að banna með öllu þessa leiðu aðferð, og það er ekki vel skiljanlegt, að menn gætu ekki gert sér hrísið að fullu gagni, þótt það sé losað með hníf, exi eða klippum, en ekki rifið upp með lúkunum. Það er einmitt þessi dauðs manns aðferð, að brúka ekki hníf, heldur »standa á og rífa«, eins og draugurinn komst að orði í þjóðsögunni, sem aðallega hefir orðið þess valdandi, að stórar og fagrar lendur, sem áður voru vafðar skógi, kjarri eða hrísi, eru nú eyðilagðar og uppblásnar, jarðvegurinn fokinn burt og ber urðin eftir.

Eg er sannfærður um, að hv. nefnd vill ekki styðja að því að þessi hættulega og ljóta meðferð á landinu haldist við, og eg vil því leyfa mér að skjóta því til hennar, hvort hún vill ekki breyta þessu við 3. umr.

En ef endilega á að halda rifrildis- ákvæðinu, álít eg að minsta kosti nauðsynlegt, að niðurlag 1. gr. gangi í þá átt, að skógræktarstjóri eða skógarverðir þurfi ætíð að veita leyfi til þess að losa megi þannig fjalldrapa eða víðir í stað þess að þeir geti að eins bannað það á þeim svæðum, þar sem ætla má að það valdi uppblæstri landsins eða verulegum skemdum, því hætt er við að frumkvæðið verði oft skógræktarstjóra og skógarvörðum erfitt á þeim afarstóru svæðum, sem umdæmi þeirra ná yfir, og ákvæðið verði því fremur lítilsvirði eins og það er.