15.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (1414)

14. mál, meðferð skóga, kjarrs o. fl.

Pétur Jónsson:

Það sannast í þessu máli, að háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) er meiri fagurfræðingur en eg; hann getur ekki »útstaðið« að rífa hrís. En eg hefi oft gert það og skammast mín ekkert fyrir það. Eg held að þetta hrísrif hafi fengið svona harða dóma vegna þess, að mönnum er ekki ljóst, hvernig tilhagar sumstaðar hér á landi. Eg er viss um að þeir sem samið hafa þetta frumv. hafa ekki mikla hugmynd um það, að sumstaðar á landinu eru stórar lendur, fleiri ferhyrningsmílur á stærð, sem eru alþaktar víði og fjalldrapa. Eg á sjálfur nálega 1 ? mílu af svona landi og mér þykir það sannarlega hart, ef það á að banna mér að rífa þar hrís, þegar það eru máske helztu notin af stórum landflæmum. Sumstaðar hagar jafnvel svo til, að viðarrifið gerir engan skaða, heldur getur orðið til stórra bóta. Þeim sem samið hafa frumv. hefir verið ókunnugt um þetta, það sýna ákvæði þess. Lög þessi eiga einungis að ná til svæða, þar sem litlar leifar eru eftir af hrís og víði og þess vegna þörf er á að vernda. Það er aðaltilgangur þeirra og því má ekki gleyma.

Af breyt.till. nefndarinnar leiðir það, að eg t. d. þarf ekki að sækja um leyfi til þess að mega rífa, heldur eru það skógræktarmennirnir, sem eiga að líta eftir því, hvar það er hættulegast fyrir landið að rifið sé og þar er þeim gefið vald til þess að banna alt rif. Alment bann í þessu efni mundi ekki ná tilgangi laganna betur en ákvæði nefndarinnar gera, en mundi allvíða koma í bága við réttindi og hagsmuni manna á einstökum stöðum í landinu og verða tómt pappírsgagn.

Það stendur enn fremur í frumv. og mælt svo fyrir að kosta skuli kapps um að beita eigi skóga né kjarr. Á einstöku stöðum eru nú stór víði- og fjalldrapalönd með smá skógi og kjarri innan um. Samkvæmt ákvæðum frv., ef þeim væri stranglega framfylgt, mundi nær því ómögulegt að nota þessar lendur til beitar, en það eru einmitt því nær einu notin, sem hægt er að hafa af þeim, og þessi afnot gera jarðirnar byggilegar og ekkert annað. Þrátt fyrir þetta hefi eg eigi né nefndin lagt til, að draga úr þessum ákvæðum, af því þau eru víða nauðsynleg, þó þau, ef þeim væri fylgt, settu sumar jarðir í eyði.

Eg sagði áðan, að stundum væri rifið ekki einungis óskaðlegt, heldur bætti það landið og væri nauðsynlegt til þess að þessum umbótum yrði við komið. Eg skal í því efni benda hv. þm. á það, að þar sem deiglendir hrísflákar eru, þá er það einasta nothæfi vegur, sem eg þekki til þess að breyta lendunum í engi eða góða vall-lendis-beit, að víðirinn og fjalldrapinn sé rifinn með rótum, og það er bót, þar sem engjar eru litlar en geysi-stórar víðilendur.

Það var sagt að ekki þyrfti að rífa heldur mætti skera hrísið. Eigi að breyta þessu landi í engi, kemur aðferðin ekki að notum, og enn fremur er þess ekki gætt, að víða rífa menn hrís til eldsneytis, til þess að spara með því sauðatað, svo þeir geti notað það til áburðar. Sé hrísið skorið eða klipt, þá verður það of dýrt til eldsneytis, vegna þess að sú aðferð mun meir en helmingi seinlegri.

Eg vil segja að menn verða að kynna sér þetta, áður en gerð eru lög og samþyktir um það. Eg segi þetta af því að eg á svo stórt hrísland og er því málið svo kunnugt, að eg get dæmt um það.

Að öðru leyti þarf eg ekki að gera athugasemdir við frumv.