17.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (1420)

14. mál, meðferð skóga, kjarrs o. fl.

Benedikt Sveinsson:

Mér hefir ekki líkað ýmislegt í frumv. þessu og hefi því komið með nokkrar breyt.till. — Við 1. gr., að á eftir orðunum: »Ekkert svæði má berhöggva«, komi: »nema landið sé tekið til ræktunar«. Tel eg þetta sjálfsagðan viðauka, sem enginn getur amast við. Þá er í 3. gr., síðustu málsgrein, að orðin: »og tæki« — til þess að höggva 100 fer.faðma svæði í skóginum, falli burt. Finst mér ósanngjarnt, að heimta af hverjum smábónda, að hann hafi hentug tæki til skógarhöggs á takteinum, þegar heimtað er. Tel eg því miklu hentara, að skógarvörður leggi sjálfur til verkfæri til þeirra hluta, heldur en að hann liggi á snöpum hjá bændum, enda tel eg líklegt, að skógarverðir hafi til þess betri og hentugri áhöld, en bændur eiga nú, og geti þeir þá jafnframt leiðbeint mönnum um notkun og útvegun slíkra áhalda.

Í 5. grein er landsstjórninni heimilað, að taka alt að 10 dagsláttna skóglendi til friðunar á jörðum einstakra manna. Er svo að orði kveðið í síðustu málsgrein greinarinnar, að fyrir afnotamissi landsins »megi« greiða eiganda eða notanda bætur eftir mati óvilhallra manna. — Eg legg til, að í staðinn fyrir orðið: »má (greiða honum)«, komi: »skal greiða honum«, því að það virðist liggja í augum uppi, að ábúanda eða eiganda beri fortakslaust endurgjald fyrir það, sem hann missir í af gæðum jarðarinnar af slíkri ráðstöfun stjórnarinnar.

Þá er í 7. gr. skipað svo fyrir, að ábúandi eða eigandi skóglendis skuli kosta kapps um, að beita sem minst skóga og kjarrlendi, einkum þegar snjór liggur á að vorinu, og að varast skuli á öllum tímum árs, að beita geitfé í skóglendi. Mér er kunnugt um það, að víða norðanlands hagar svo til, að þessu ákvæði er als ekki hægt að fullnægja, nema svo sé krept að mönnum, að þeir megi alls ekki láta fé sitt út þann tíma ársins, sem kvistlendisbeitarinnar er mest þörf, en það er einmitt, þegar snjór liggur á jörð og að vorinu.

Um geitfénaðinn er það að segja, að hann er notadrýgstur í engjalitlum kvistlendis-sveitum, þar sem erfitt er að hafa kýr. Hefir það alt í frá forneskju verið nokkur bjargræðisvegur fátækum mönnum að eiga geitfénað, því að:

»Þótt tvær geitr eigi

og taugreftan sal

þat er þó betra en bæn«. —

En það liggur í augum uppi, að ef þetta ákvæði verður að lögum, þá er það dauðadómur yfir geitfé því, sem nú er til í landinu.

Vonast eg því til þess, að hin háttv. deild samþykki þessar breyt.till.

Annars hefði að minni hyggju verið réttast, að fella frumv. þetta með öllu. Lögin verða gagnslítil, en valda óþægindum og tjóni. Eg tel skógunum næga lagavernd í heimild þeirri, sem sýslunefndir hafa nú, til þess að gera samþyktir um friðun skóga í hverri sýslu, og hlýt eg að telja þá aðferð miklu vænlegri til gagns, því að mikið brestur á það, að hið sama eigi við um alt land.

Þegar kominn er nú þar á ofan heill her af eftirlitsmönnum með skógræktarstjóra í fararbroddi, þá tel eg þeim vorkunnarlaust, að sjá um, að vel og hyggilega sé með skógana farið.