08.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

6. mál, aðflutningsgjald

Framsögumaður (Steingrímur Jónsson):

Eg get verið fáorður um breytingartillöguna, því að háttv. 3. og 5. kgk. þm. hafa tekið ómakið af mér. Við 2. umr. málsins færði eg fram ástæður á móti viðbótarákvæði Nd. við frumvarpið, þar sem ætlast var til að lögin giltu frá 24. febrúar. Þær ástæður gilda jafnt á móti breytingartillögu þessari, því að það ákvæði, sem hér er farið fram á, hefir sömu höfuðgallana sem hitt. Að vísu er þetta ákvæði betra að því leyti, að trygging er meiri fyrir því, að tekjuaukinn náist, og eins hitt, að af því stafar ekkert misrétti milli kaupmanna. En hvorugt af þessu var aðal ókosturinn við ákvæðið frá Nd., heldur hitt, að taka upp þá reglu, að láta lög gilda aftur fyrir sig, að láta ákvæði laga gilda áður en lögin eru orðin til, og svifta menn á þann hátt vel fengnum réttindum. Það er réttur kaupmannsins, að verða ekki neyddur til að borga aftur toll af vörum, sem hann hefir keypt, ef til vill fyrir mörgum árum, og er búinn að borga lögboðinn toll af. Þetta ákvæði er enn þá harðara en hitt, að því leyti, að það nær ekki aðeins til þeirra, sem hafa haft þann tilgang, að komast hjá tollaukanum, heldur líka til allra, sem eiga afgang af vörubirgðum frá síðustu árum. — Tollaukinn hlýtur að verða til þess, og á að verða til þess, að áfengiskaup í landinu minki. En ef svo verður, og tollaukinn nær til allra birgða, þá verða þeir menn tvöfalt hart úti, sem hafa birgt sig vel upp í þeirri von, að geta selt vörurnar á hæfilega löngum tíma, en verða svo að liggja með þær afar lengi.

Það er auðvitað æskilegt, að tekjuauki landsjóðs verði sem mestur, en það verður þó að gæta þess, að fara eftir réttum löggjafarreglum. Það er varhugaverð og háskaleg braut, sem þingið kemst inn á, ef það tekur upp þá reglu, að láta lög verka aftur fyrir sig. Með því er kipt burtu öllum grundvelli undir sæmilegu réttarástandi í landinu. Ef byrjað er á slíku, má verja flest. Þá mætti jafnvel fara að láta ströng hegningarákvæði verka aftur fyrir sig, og sjá allir hver háski væri af því búinn.

Eg skal ennfremur geta þess, að samskonar tillaga og þessi kom fram í Nd., en var ekki borin upp, eingöngu af þeirri ástæðu, að það voru engar líkur til að hún yrði samþykt. Ef við nú samþykkjum þetta ákvæði, þá verður það að öllum líkindum til þess, að frumvarpið hrekst á milli deildanna og tefst svo, að lögin koma enn þá seinna að gagni; en gætu annars orðið tilbúin svo fljótt, að þau yrðu send með ferð sem fellur til útlanda einmitt nú þessa dagana. — Eg ætla ekki að orðlengja þetta frekar, en vona að háttv. deildarmenn felli breytingartillöguna.