17.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (1443)

15. mál, námulög

Framsögumaður (Björn Kristjánsson):

Við síðustu umr. benti eg að eins á aðalþráðinn í þessum lagabálki; en nú vil eg leyfa mér að benda á hin einstöku atriði.

Nefndin fékk vitneskju um það, að fyrir kæmi, að landssjóður ætti stundum hálfar jarðir, og gera gildandi námulög ekki ráð fyrir því. Nefndin hefir því ráðið af, til að fyrirbyggja mikla vafninga, að láta námulögin að eins ná til jarða, sem landssjóður eða kirkja á óskiftar.

Enn fremur stóð í gildandi lögum, að námulögin næðu til allra »kirkjujarða« í staðinn fyrir léns-kirkjujarða.

2. gr. líka talsvert breytt. Þar kemur nýtt ákvæði um það að ekki þurfi að setja tryggingu, nema leitað sé í túnum og matjurtagörðum. Nú er ætlast til, að hlutaðeigandi lögreglustjóri gefi út málmleitarbréf, einnig þau, sem stjórnarráðinu er ætlað að gefa út samkvæmt námulögunum. Það væri t. d. tafsamt fyrir mann, sem ætti heima norður á Langanesi, að fá málmleitarbréf suður í Reykjavík. Séu málmleitarmenn útlendir eða dvelji langvistum erlendis er þeim ætlað að hafa umboðsmenn hér á landi, sem lögreglustjóri geti snúið sér til.

3. gr. er hér um bil eins og í eldri lögunum.

6. gr. breytt frá eldri lögum, að því leyti, að 12 mánaða fresturinn er gerður að tveim árum, annað var ósamrýmanlegt í námulögunum, eins og þau eru. Frestirnir þar koma hver í bága við annan.

Ætlast er til að málmgraftrar-tilkynning sé færð inn í námabókina. Og einnig að þeim er hafa jörð til nytja, sé birt með tveim vottum, ef málmar hafa fundist; öðrum birtingum slept sem þýðingarlausum.

Eg fer að eins fljótlega yfir sögu, því efnið mun ekki vera skemtilegt fyrir háttv. deildarmenn.

11. gr. er breytt að því leyti, að námuteigarnir eiga að verða stærri; er stærð þeirra miðuð við stærð námuteiga í Bandaríkjunum; er ekki líklegt, að námusvæði megi vera minna hér en þar, í jafn fámennu og félausu landi, sem Ísland er. Ætlast er til að námufinnandi fái tvo námuteigi, en aðrir einn.

12. gr. fer fram á, að sá sem beiðist útmælingar láti lögreglustjóra í té alla aðstoð, er hann með þarf.

Eg þykist vita, að háttv. þingdeildarmönnum sé þetta mál annars orðið ljóst, svo að ekki þurfi mikið frekar um það að ræða, þar sem aðalbreytingarnar eru skýrðar í nefndarálitinu.

Nefndin hefir gert alt, sem í hennar valdi stóð, til þess að gera lögin aðgengilegri en núgildandi lög og samræmilegri. Hún álítur rétt að stuðla að því, að námanna sé leitað.

Eg vænti þess, að háttv. deild, taki frumv. þessu vel, samþ. breyt.tillögur nefndarinnar og vísi því til 3. umr.