08.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

6. mál, aðflutningsgjald

Framsögumaður (Steingrímur Jónsson):

Háttv. þm. Vestur-Skaftfellinga sagði, að það mætti ekki leggja mikla áherzlu á að fara ekki út fyrir það, sem fordæmi eru fyrir. Þetta er athugaverð skoðun. Vér Íslendingar, sem stöndum nokkuð aftarlega sem löggjafarþjóð, ættum einmitt að gá vel að því, hvað aðrar þjóðir gera, og helzt aldrei fara út fyrir dæmi þeirra þjóða, sem framar standa hvað löggjöf snertir. Það er nauðsyn fyrir okkur að fara varlega í þessum efnum, því að annars gæti vel svo farið, að við hlypum ýmis gönuskeið til tjóns og skammar, og yrðum í augum annara þjóða ættlerar og heimskingjar, sem ekki kunna fótum sínum forráð. Svona gæti vel farið, ef við færum að brjóta þær reglur, sem alstaðar eru álitnar svo áríðandi grundvallarreglur í löggjöfinni, að alls eigi megi frá þeim víkja.