10.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 935 í B-deild Alþingistíðinda. (1455)

17. mál, kosningar til Alþingis

Ráðherrann (H. H.):

Eg sé á till. háttv. nefndar, að hún ætlast til, að framboðsfrestur til alþingis væri hér eftir 6 vikur í stað 4 vikna eftir lögunum frá 3. okt. 1903. En eg sé ekki betur, en að það sé hálfhættulegt ákvæði, sem nefndinni hlýtur að vera ljóst, ef málið er athugað vandlega. Eftir núgildandi lögum er svo fyrirmælt, að sé að eins einn frambjóðandi, þá skoðast hann sem kosinn án atkv.-greiðslu og séu tveir frambjóðendur, og annar deyr eða dregur sig tilbaka þegar framboðsfresturinn er útrunninn — þá er hinn frambjóðandinn kosinn án atkvæðagreiðslu. Ef þessi óhöpp því vilja til eftir að framboðsfrestur er liðinn, þá gefst viðkomandi kjördæmi ekki kostur á að velja þingmann sinn. Já, getur meira að segja orðið alveg þingmannslaust um tíma, ef frambjóðandinn hefir að eins verið einn. En það er skiljanlegt, að því lengri tíma, sem menn eru útilokaðir frá því að fá ný þingmannsefni, því hættulegra er ákvæðið. Það gat verið nógu viðsjárvert að hafa framboðsfrestinn 4 vikur, en að hafa hann 6 vikur er auðvitað enn þá miklu verra. Eg vona því, að nefndin breyti því ákvæði.