12.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (1458)

17. mál, kosningar til Alþingis

Framsögumaður (Ólafur Briem):

Verði frumv. þetta samþ. með breyt.till. nefndarinnar, verður það í 5 gr. Fyrsta greinin hljóðar um það, að á aukakjörskrá þá, sem um er rætt í 12. gr. kosningalaganna, skuli þeir settir, sem ekki hafa kosningarrétt, þá er kjörskrá gengur í gildi (1. júlí), en vitanlegt þykir, að fullnægja muni þeim skilyrðum, sem til kosningarréttar þurfa einhvern tíma á árinu, er kjörskrá gildir fyrir, í stað þess að eftir núgildandi lögum skulu þeir settir á aukakjörskrá, sem ekki hafa öðlast kosningarrétt, þegar kjörskrá er samin (í janúar). Með þessari breytingu er bætt úr ósamræmi, sem er á milli 11. og 12. gr. hinna gildandi kosningarlaga.

Önnur breyting á eldri lögum er sú, að sá 7 daga frestur, sem nú er ætlaður til að fullgera kjörseðla, er ákveðinn 10 dagar. Þetta er gert vegna þeirra kjördæma landsins, sem langt eiga að sækja til prentsmiðju, og þar af leiðandi þurfa langan tíma til að koma kjörseðlum til prentunar. Svo er t. d. að segja um Austur-Skaftafellssýslu, að þar entist ekki hinn lögákveðni 7 daga frestur við kosningaundirbúninginn síðastliðið sumar. Það getur verið álitamál, hvort sú uppástunga nefndarinnar að færa kjördaginn til 1. vetrardags sé heppileg eða ekki. Sannast að segja er kjördagur sá, sem nú er í lögum (10. septbr.) haganlegur fyrir mikinn hluta landsins t. d. Norðurland og Austurland, en vegna sjómannastéttarinnar á Suðurlandi og Vesturlandi hefir nefndin þó fallist á að færa kosninguna lengra fram á haustið. Og dugir þá varla minni færsla en til 20. oktbr. sökum haustanna, er kalla að fram að því tímatakmarki.

Það hefir verið tekið fram með réttu, að blindum mönnum og þeim, sem eru handarvana, eða fatlaðir á annan hátt, sé með ákvæðum laganna um kosningarathöfnina hamlað frá að neyta kosningarréttar síns. Þetta er sýnilega mikill galli á lögunum og mætti bæta úr honum á þann hátt, að sá maður úr kjörstjórninni, er kjósandi nefnir til, veiti honum aðstoð við kosninguna,

og er ákvæði um þetta tekið upp í 4. gr. frumv.

Þá má og minnast á það, að verði kosning þingmanns ógild samkvæmt 29. gr. stjórnarskrárinnar sbr. 41. og 48. gr. kosningarlaganna, eru engin ákvæði í lögunum um, hvað þá skuli gera; eðlilegast virðist, að stjórnarráðið skipi þá fyrir um nýja kosningu sem fyrst og er í 5. gr. frumv. tekið upp ákvæði þar að lútandi. Annars má geta þess, að dráttur sá, sem hlýtur að verða á úrskurði um gildi þingmannskosningar, þegar sá úrskurður biður þess að þing komi saman, getur oft komið sér mjög illa.

Nú á þessu þingi, þar sem slíkt mál lá fyrir um kosningu þingm. Seyðf. úrskurðaði þingið, að ný kosning skyldi fram fara. En þau óþægindi eru því samfara, að hinn nýkjörni þingmaður getur tæplega mætt á þinginu, fyr en langt er af því liðið, en úr þeim galla verður ekki bætt nema með breytingu á 29. gr. stjórnarskrárinnar, er mælir svo fyrir, að alþingi skeri sjálft úr, hvort þingmenn þess séu löglega kosnir.