20.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í B-deild Alþingistíðinda. (1462)

17. mál, kosningar til Alþingis

Framsögumaður (Ólafur Briem):

Við þessa umr. hafa ekki komið fram neinar breyt.till. við frumv. þetta. En í Ed. hafa verið gerðar nokkrar breyt. á frumv., fyrst sú, að aukakjörskrá skuli samin í maímánuði og á hana settir ekki að eins þeir, er ekki hafa kosningarrétt, þá er kjörskrá gengur í gildi (1. júlí) en vitanlegt þykir að fullnægja muni skilyrðum þeim, sem til kosningarréttar þurfa einhverntíma á árinu, er kjörskrá gildir fyrir, heldur einnig þeir kjósendur, er fallið hafa burt af aðalkjörskrá, þótt ekki hafi kært.

Önnur breyt. Ed. er sú, að frestir allir við kærur og aðfinningar við aukakjörskrá séu þriðjungi styttri en við aðalkjörskrá, sem er bein afleiðing af því, að aukakjörskrá er samin 4 mánuðum síðar, (í maí í staðinn fyrir janúar) en á að vera komin til yfirkjörstjórna á sama tíma (fyrir 1. júlí).

Þriðja breyt. Ed. er sú, að ef frambjóðandi deyr, áður en kosning fer fram, en eftir að framboðsfrestur er liðinn eða á næstu 3 sólarhringum fyrir það tímamark, megi annar maður bjóða sig fram til þingmensku, ef fullur helmingur af meðmælendum hins látna eru meðal meðmælenda hans. Þetta ákvæði miðar til þess, að stjórnmálaflokki þeim, er veitti hinum látna kjörfylgi, sé ekki fyrirmunað að neyta kosningarréttar síns, þegar svo stendur á, að að eins einn maður býður sig fram fyrir hvern stjórnmálaflokk, og er þetta gert í því skyni að koma í veg fyrir misrétti, sem annars ætti sér stað að óþörfu eða ástæðulausu.

Fjórða breyt. Ed. er sú, að ef kosning ferst fyrir í einhverjum hreppi á hinum ákveðna kjördegi sökum óveðurs eða af öðrum óviðráðanlegum ástæðum, skuli kvatt til kjörfundar að nýju á þann hátt, sem mælt er fyrir um í 51. gr. kosningarlaganna. Þetta ákvæði er nauðsynlegt með tilliti til þess, að kjördagurinn er færður lengra fram á haustið (frá 10. sept. til fyrsta vetrardags), er getur valdið því að kosning farist fyrir fremur en nú, einkum í strjálbygðum illviðrasveitum.

Allar þessar breyt. eru til bóta og væntist þess, að frumv. verði samþ. til fullnaðar.