01.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (1468)

18. mál, borgaralegt hjónaband

Flutningsmaður (Jón Ólafsson):

Eg er þakklátur hv. þm. Vestm. (J.M.) fyrir það að hann er mér og oss flutnm. sammála um það, sem er aðalatriðið: undanþágu frá hjúskaparauglýsingu sbr. lög 19. febr. 1886 3. og 4. gr. Að því er síðari liðinn snertir, virðist hv. þm. ganga að því vísu að borgaralegt hjónaband mundi að eins koma fyrir í kaupstöðum. (Jón Magnússon: Helzt í kaupstöðum). En mér er kunnugt, að það er tiltölulega alltítt upp til sveita. Með ákvæði þessu er ekki þrengt að valdsmanninum. Honum er ekki gert að skyldu að takast langa og erfiða ferð á hendur til að gefa brúðhjónin saman. Það er að eins sagt, að hann skuli fara eftir óskum brúðhjónanna í því efni, að svo miklu leyti sem hentugleikar hans leyfa. Í hinum eldri lögum frá 1886 er svo fyrir mælt, að valdsmaðurinn ákveði, hvar og hvenær vígslan skuli fara fram og hann er ekki skyldugur til að tilkynna það, ef til vill fyr en daginn áður eða jafnvel sama daginn. Þetta er nokkuð óviðkunnanlegt og getur verið brúðhjónunum allóþægilegt. Eins og kunnugt er, þá er það alvenja að gefa leyfisbréf fyrir þjóðkirkjumenn til hjónavígslu í heimahúsum, en hvaða ástæða er til að gera þennan greinarmun á þjóðkirkjumönnum og utanþjóðkirkjumönnum?