13.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (1476)

18. mál, borgaralegt hjónaband

Jón Magnússon:

Eg skal játa það, að þetta mál er varla þess vert, að vera að ræða mikið um það, en þó vil eg leiðrétta dálítið hjá háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) Hann sagði, að eg hefði sagt, að borgaralegar hjónavígslur mætti aldrei fara fram annarsstaðar en á skrifstofum valdsmanna. Þetta er þveröfugt við það, sem eg sagði, enda stendur berlega í utanþjóðkirkjulögunum, að svo þurfi ekki að vera. Eg sagði hitt, að í kaupstöðum ættu slíkar athafnir að fara fram á skrifstofu valdsmanns eða á ráðhúsinu.

Annars læt eg mér í léttu rúmi liggja um frumvarp þetta. Eg er hræddur um, að persónulegur árekstur valdi dálitlu um kapp háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) í þessu máli. Eg hygg, að það geri nokkuð til, að tregða hefir verið á því einhvern tíma, að fá bæjarfógeta til að gefa hjón saman í borgaralegt hjónaband heima hjá háttv. þm., og þó gekk það fram.

En sem sagt, þetta atriði er svo óverulegt atriði, og hefir svo litla praktiska þýðingu, að eg vil ekki eyða frekari orðum um það.