27.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (1480)

16. mál, aðflutningsbann

Ráðherrann (H. H.):

Háttvirtur flm. þessa frv. (B. J.) leit svo á, að aðalmótbáran gegn aðflutningsbanninu væri sú, að tekjumissirinn yrði landssjóði of tilfinnanlegur, hræðslan við það, að bannið hyggi svo stórt skarð í tekjur landssjóðsins, að erfitt myndi úr að bæta. Eg skal játa að skarðið yrði að vísu stórt, er alls vínfangatollsins misti við, en mér virðist það þó enganveginn skifta mestu máli. Úr því yrði tiltölulega hægt að bæta og þyrfti ekki til þess neina sérstaka fjármálasnild.

Á fjárhagstímabilinu 1906—1907 var vínfangatollurinn 427 þús. kr. En á sama fjárhagstímabili var flutt svo mikið af kaffi og sykri til landsins, að með 4 aura viðbót við tollinn á pundinu af hvoru um sig, mundi hækkunin á kaffi- og sykurtolli hafa numið yfir 413 þúsundum króna, svo að með því að færa kaffitollinn upp í 17 aura og sykurtollinn upp í 10½ eyri á pundi, ætti að fást alt að því sama upphæð eins og vínfangatollinum nemur, ef aðflutningurinn minkaði ekki að mun, sem naumast mundi verða. Þetta væri engin frágangssök, og mætti ef til vill jafnvel hafa hækkunina enn þá meiri. En þess ber vel að gæta, að þó að það gæti lánast, að velta þannig vínfangatollinum yfir á alla kaffi- og sykurnotendur í landinu, svo að landssjóðurinn misti einskis í, þá mundi þó gjaldendur landsins og landið sem heild skaðast á þeim skiftum í peningalegu tilliti, auk þess sem gjaldið kæmi miklu ránglátlegar niður. Það er síður en svo, að alt það áfengi, sem til landsins flytst, sé keypt og drukkið af íslenzkum gjaldendum. Vínföng eru nálega hin eina tollvara, sem útlendingar, sérstaklega hinn útlendi fiskimannalýður, kaupa hér að nokkrum verulegum mun; og það er eigi all-lítið sem þeir kaupa af vínföngum, og borga tollinn af. Sá tollur er nálega eina gjaldið, sem útlendingar greiða í landssjóðinn, því tóbak munu þeir oftast hafa með sér, og ekki gera þeir hér þungavöruinnkaup á kaffi og sykri. Upphæð, sem svarar tollinum af öllum öl- og vínföngum, sem útlendingar kaupa hér við land, mundi því blátt áfram bætast við skattgjald innlendra gjaldenda, landið tapaði þeim peningum alveg.

Nú veit eg, að bannmenn segja, að landið mundi á annan hátt spara sér svo mikið fé við það að hætta vínfangakaupunum, að þetta mundi margsinnis borga sig, og landið yrði þeim mun færara um að borga aukin gjöld. En hér við er það að athuga, að menn gera sér alment rangar hugmyndir um það, hvað vínfangakaupin kosta landið í raun og veru, og skýrslur og fortölur bannformælenda um þetta eru mjög svo villandi, er þeir segja að Íslendingar kasti á glæ allri þeirri upphæð, sem aðflutt vínföng kosta samkvæmt verzlunarskýrslunum. Því verzlunarskýrslurnar miða við útsöluverð hér á landi, og þar er meðtalinn tollur, starfslaun og ágóði, sem eftir verður í landinu. Það, sem landið eyðir við áfengiskaupin, er að eins innkaupsverð vörunnar, að viðbættum flutningskostnaði, ef varan er flutt í útlendu skipi. Til þess að skýra hvað þetta hefir að þýða, skal eg taka til dæmis þá áfengistegundina, sem langmest er flutt af og langmest munar um tollinn af. Það er brennivínið. Árið 1907 fluttist af dönsku brennivíni um 300 þúsund pottar, miðað við 8° styrkleika. Eftir verzlunarskýrslunum mun verðið á þessu nema hér um bil 340 þúsund kr., og samkvæmt kenningum bannformælenda ætti því landið að hafa fleygt í sjóinn þessari upphæð fyrir brennivín. En sannleikurinn er sá, að af þessum 340 þúsundum kr. renna 156,000 kr. í landsjóðinn sem tollur, er landsmenn annars þyrftu að greiða á annan hátt, 100—110 þúsundir eru ágóði, starfslaun og því um líkt, er kemur landinu til góða, en út úr landinu fer að eins 70—80 þúsund kr. af allri upphæðinni, sem brennivínið kostar í útsölu. Það er mjög sennilegt, þó að eg geti ekki sannað það nú, að vínfangatollurinn, sem útlendingar borga, nemi fullkomlega þeirri upphæð, sem öll innflutt vínföng kosta utanlands í innkaupum, svo að bann gegn innflutningi áfengis mundi ekki spara landinu í heild sinni neitt fé í aðra hönd, í öllu falli þyngjast gjöldin á þeim, sem hingað til ekki hafa keypt áfengi. og missir vínfangatollsins verður að skoðast sem fjárhagslegt tjón fyrir gjaldendur landsins.

En þetta fjárhagslega tjón er þó lítilsvirði í samanburði við annað og meira tjón, er af aðflutningsbanni getur hlotist fyrir verzlun landsins og viðgang þess, og skal eg nefna þess nokkur dæmi.

Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að saltfiskur er aðal-útflutnings-varan héðan, og að Spánn er aðal-markaðurinn fyrir þá vöru. Það er því deginum ljósara, að það er eitt af fjárhagslegum lífsskilyrðum þessa lands, að eiga sér þar viðskifti trygð. Með verzlunarsamningi milli Danmerkur og Spánar 4. júlí 1893, sem birtur er á Íslandi með stjórnarauglýsingu 9. nóv. 1894, er Íslandi meðal annars trygt það, að ekki verði á Spáni eða í spanska ríkinu lagt annað eða hærra aðflutningsgjald á íslenzkan saltfisk eða sjávarafurðir aðrar, en lagt er eða lagt verður á samskonar afurðir frá hverri annari þjóð, með öðrum orðum, að engri þjóð geti orðið ívilnað á Spáni í þessu tilliti, nema Ísland verði jafnframt ívilnunarinnar aðnjótandi, svo að vér þannig njótum þess, sem aðrar þjóðir, t. d. Norðmenn, leggja í sölurnar til þess að fá góð kjör fyrir sinn saltfisk, að á afurðir héðan verði ekki lagður hærri bæjartollur eða neyzlugjald (accise eða consumptions-gjald), heldur en á samskonar vöru, sem framleiddar eru þar í landinu sjálfu, að eigi megi leggja á vörur, sem héðan eru fluttar, svo nefndan »surtaxe« (auka-toll), hærri en lagður er á samskonar vörur, er til Spánar eru fluttar á spönsku skipi, og að saltfiski, sem héðan er fluttur beina leið til Spánar, þurfi eigi að fylgja skírteini um það, hvaðan hann sé (upprunaskírteini) o. s. frv. En meginatriði samningsins, sem alt hitt grundvallast á, er ákvæðið í 1. gr. hans, að verzlunin milli landanna skuli vera frjáls. Þetta er skilyrðið fyrir hinu. Nú er vín og vínföng, sem er algeng og viðurkend verzlunarvara um allan hinn mentaða heim, eitt af helztu aðalafurðum Spánar og spanska ríkisins, eins mikilsverð útflutningsvara að sínu leyti fyrir það land, eins og saltfiskurinn fyrir Ísland. Sé nú bönnuð hér verzlun eða jafnvel allur aðflutningur hingað til lands á þessum aðalafurðum Spánar, þá er viðbúið, að Spánverjum þyki illa haldið við sig hið fyrsta meginatriði samningsins, loforðið um frjálsan markað fyrir afurðir beggja landanna og telji sig lausa allra mála um hitt annað. Ef því frv. þetta eða eitthvað þessu líkt er knúð fram, á Ísland það bersýnilega á hættu, að Spánverjar láti fyrst sendiherrann í Kaupmannahöfn mótmæla lögunum, og heimti að minsta kosti undanþágu fyrir spönsk vín, og ef vér skipumst ekki við það, taki til að gjalda líku líkt, og nota venjuleg »repressalia«, annaðhvort íþyngi íslenzkum varningi með tollum eða hefti innflutning hans.

Nú má að vísu segja, að vínverzlunin við Ísland sé svo lítil fjöður á fati Spánar, að Spánverjar muni ekki láta sig þetta neinu skifta, svo að samningsrofið muni slampast af óátalið. Það er satt að vísu, að aðflutningur víns beina leið frá Spáni hingað er óverulegur, og er það bein afleiðing af því, hvernig siglingum háttar. En hitt mun á hinn bóginn víst að það, sem hingað flytst frá Danmörku af svo nefndum »heitum vínum« Sherry, Portvín, Madeira o. fl., það stafar mestmegnis frá Spáni eða spönskum löndum. Það eru spanskar afurðir, sem þá missa markað, ef markaðinum hér er lokað, og nam verð þessa varnings, eftir verzlunarskýrslunum 1906 30—40 þúsund krónum. Það er bersýnilegt, að ef Ísland á fyrir hendi að eflast og þróast, eins og vér vonum, svo að íbúatalan margfaldist frá því sem nú er, þá vex verzlunin ekki hvað sízt, og getur vínverzlunin við Ísland þá munað Spánverja miklu meira síðar en nú, og þeim orðið meiri eftirsjá í henni.

Aðalatriðið er þó það, að hér er um grundvallarreglu (princip) að ræða, sem þjóðirnar sjaldnast þola að brotið sé móti, og gæti dregið dilk eftir sér fyrir vínlöndin gagnvart stærri þjóðum, ef slík afbrigði leyfast einu landi, þótt lítið sé. Vér sjáum á reynslu síðustu ára, hve afarviðkvæmir Frakkar hafa verið gagnvart minni háttar tollhækkunum á víni bæði í Danmörku og í Noregi, þannig að ströngustu mótleikum hefir verið beitt eða hótað, neitun lánsfjár úr frönskum bönkum til Danmerkur, banni gegn sölu norskra ríkisskuldabréfa á Frakklandi o. s. frv. og vitum vér, að bæði Danir og Norðmenn hafa orðið að láta undan síga. Noregur hefir og áður fengið að kenna á vilja Spánar í þessu efni og orðið að taka tillit til hans, til þess að varðveita fiskmarkað sinn, og er það lausavon ein, að Spánverjar mundu verða oss hýrari í horn að taka til langframa, er þeir fá vitneskju um, að hér sé lögleitt algert bann gegn aðalvarningi þeirra. Ef við gerum þetta frv. að lögum, eigum við því á hættu, að þurfa að kippa þeim lögum snögglega úr gildi aftur, eða sæta kostum, sem yrði landi voru og öðrum aðalatvinnuvegi þess til afar-mikils tjóns.

Þetta er nú ein hættan, sem af frv. stafar, en þær eru miklu fleiri. Eg vil að eins lauslega drepa á hættu þá, sem af því getur stafað fyrir þjóðarálit vort í öðrum löndum. Það er bersýnilegt, að útlendingar, sem skynja þau óþægindi, sem því hljóta að vera samfara, að örlítil þjóð taki sig út úr almennum viðskiftum og frjálsri verzlun við önnur lönd, munu ósjálfrátt hugsa sem svo: »Hvað gat komið þessari fámennu þjóð til að taka til slíkra örþrifaráða? Ekki getur það verið gert að eins til þess að ganga á undan öðrum þjóðum með góðu eftirdæmi! Auðvitað hlýtur að valda því hin brýnasta nauðsyn, það hlýtur að hafa verið lífsskilyrði fyrir þjóðina að hefta allan vínflutning til landsins, til þess að verja sig glötun. Þjóðin hlýtur að vera svo skrælingjalega ístöðulaus og hneigð til ofdrykkju, að þetta hefir þótt einasta ráðið, sem dygði til þess, að bjarga henni«. En mér er spurn: Eigum við slíkt Eskimóa-orð skilið. Eru Íslendingar þeir ræflar, að þeir geti ekki haft vín skynsamlega um hönd, eins og aðrir siðaðir menn? Eg neita því hiklaust fyrir þjóðarinnar hönd; það er ástæðulaus móðgun við íslenzku þjóðina, að gera henni slíkar getsakir. Hún kann eins vel að stjórna sér í þessu efni, eins og hver önnur þjóð, og alment er vín misbrúkað hér miklu minna en í mörgum öðrum löndum. Það væri því hart fyrir þjóðina, að liggja undir því, að slíkt orð legðist á hana, henni til skammar og skaða. Menn mega ekki misskilja mig svo, að eg telji það réttmætt, að draga slíkar ályktanir, þótt innleitt væri aðflutningsbann; en því ber ekki að neita, að jafnskaðleg og hættuleg gæti slík skoðun verið áliti voru í öðrum löndum, hversu óréttmæt sem hún í raun og veru væri.

Þá er að geta þess, að aðflutningsbann mundi skaða landið sem ferðamannaland. Hingað koma þegar all-margir ferðamenn og dvelja sumir all-lengi og ferðast um til að skoða landið; þessir menn eru nær undantekningarlaust heldri menn, vanir því að hafa það viðurværi, er þeim líkar bezt, borða það sem þeim sýnist og drekka það sem þeim þóknast, yfir höfuð að hafa persónulegt frelsi. Það er hætt við, að t. d. frjálsbornum Englendingum mundi bregða í brún, er þeir kæmu hér og fengju að vita, að þeim væri með lögum bannað að neyta þess, sem þeir eru vanir við frá æsku, og frjálslega geta neytt, hvar sem vera skal annars staðar í veröldinni. Það er sennilegt, að þeir mintust þess, að »víðar er guð en í Görðum« og bæðu þetta land vel að lifa með þvingunarlögum sínum og lögákveðnu matarhæfi. Hitt ætti þó að vera lýðum ljóst, að það getur haft afarmikla þýðingu, að hæna ferðamenn að sér, ef menn trúa því, að Ísland hafi skilyrði fyrir því, að geta með tímanum orðið eftirsótt ferðamannaland. Lítum á lönd eins og Sviss og Týrol, hvílíkt ógrynni fjár ber eigi ferðamannastraumurinn inn í lönd þessi árlega? Náttúrulegurð þeirra landa er viðbrugðið; en náttúrufegurð Íslands er líka mikilfengleg; vér eigum líka tignarleg fjöll, sólglæsta jökla, og kraftþrungna fossa, og ferðamönnum hefir yfirleitt getist mæta vel að loftslagi og landsháttum, til þess að taka sér hér hressandi sumarsprett. Náttúruskilyrðin eru fyrir hendi, og það ætti að mega eiga von á vaxandi ferðamannastraum, þrátt fyrir það, hve öllu því, sem menn geta í té látið annars staðar, er ábótavant hér enn þá, ef vér ekki bolum vora útlendu vini frá oss með illum viðtökum og óviturlegum lögum. En eftir þessum lögum er svo langt frá því, að ferðamenn gætu keypt sér hér það, sem þeir eru vanir að nota til daglegrar neyzlu, að þeir fengju ekki einu sinni að neyta hér þess forða, sem þeir hefðu með sér heiman að; það yrði blátt áfram tekið af þeim eins og óvitum, og þeir ættu jafnvel á hættu að komast í tukthúsið, ef þeir leyfðu sér, að taka með sér eitthvað, sem er fyrir ofan áfengistakmarkið, neyta þess sjálfir eða gefa kunningja sínum hressingu! Það er hætt við, að þeir yrðu fáir, heldri manna og dugandi drengja, sem leituðu sumarhressingar í landi, þar sem slík lög væru í gildi, nema þá til þess að láta, sem þau væru ekki til.

Já, láta sem lögin væru ekki til. Það er auðvitað úrræði, sem nota má og það er sannast að segja, að allir þeir annmarkar, sem eg hefi drepið á eru litlir hjá því aðalatriði, að öll framkvæmd laganna hlýtur að fara í mestu handaskolum. Eg fæ ekki séð, að á hinni löngu, strjálbygðu strandlengju vorri sé unt að hafa nokkurt markvert eftirlit með því, að ekkert áfengi flytjist inn í landið. Til þess þyrfti mörg hundruð sinnum meira lögreglulið en vér nú getum áskipað, og við þeim kostnaði mætti landssjóður ekki. Og hversu góð, sem lögreglan væri, þá mætti alt af búast við sífeldum brotum á lögum eins og þeim, er þetta frumvarp fer fram á. Það er að vísu ekki unt að skírskota í þessu efni beint til reynslu annara landa, því að lög eins og þetta eru óþekt alstaðar um víða veröld, þau eru eins dæmi, sérstök í sinni röð. En alstaðar í siðuðum löndum, þar sem reynt hefir verið að beita lagaþvingun í þá átt að hefta áfengisnautn, hefir það komið í ljós, að lögin ná ekki tilgangi sínum, að þeim er traðkað leynt og ljóst, yfirhylming, yfirdrepsskapur og alls konar undanbrögð þrífast, vitni muna ekki, lögreglumenn sjá ekki, dómarar skilja ekki og gróðavonir uppljóstursmanna og mútuþega togast á. Að slíkri niðurstöðu komst nefnd sú, sem sett var í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum til þess að rannsaka áhrif bannlaga eða takmörkunarlaga, er þar höfðu verið sett í ýmsum ríkjum, og er hún eigi glæsileg. Það er naumast efi á því, að líkt mundi ekki síður verða uppi á teningnum hér hjá oss, ef vér færum að samþykkja slík lög sem þau, er hér eru á ferðinni.— Þau mundu framkalla lagabrot á lagabrot ofan, og stjórnarvöldin vera alveg máttlaus til þess að halda lögunum í heiðri og fylgja þeim fram. En að hafa í landi lög, sem gefa tilefni til sífeldra, daglegra lagabrota, sem ekki er hægt að hafa hemil á, er og verður siðspillandi og eitur fyrir hugsunarhátt þjóðarinnar. Það er þessara laga siðferðislega fylgja, og væri þá illa.

En ekki nóg með það, að lögin hefðu alment siðferðislega ill áhrif á landsmenn, heldur mundi sjálf bindindishreyfingin og bindindisfélögin leggjast niður, því að í landi þar sem það er lagabrot að neyta áfengis, — gæti sá félagsskapur — félagsskapur um að neyta ekki áfengis — ekki haldist né haft opinberan tilverurétt, fremur en félagssamtök um að brjóta ekki önnur hegningarlög landsins, drekka ekki eitur eða þvíumlíkt. Nú er alkunnugt, hve miklu, góðu og þarflegu þessi félög hafa til leiðar komið, að því er snertir skoðun manna á ofdrykkju og drykkjuskap yfir höfuð, hve mjög þau hafa umsteypt tíðarandanum í því tilliti, og vil eg sérstaklega leggja áherzlu á það, að æskulýðnum hafa þau innrætt það rækilega, að áfengisnautn væri óholl, og þannig valdið því, að margir af uppvaxandi æskulýð hafa alist upp við fullkomið bindindi frá blautu barnsbeini, þrátt fyrir það, að áfengissala og áfengisnautn hefir verið frjáls og framkvæmd af öðrum. En eg er hræddur um, að þegar bindindisfélögin legðust niður mundi þetta smámsaman gleymast æskulýðnum. Hann mundi heyra, að í öllum öðrum löndum væri freyðandi bjór og blikandi vín, sem menn drykkju og yrðu glaðir við og hreifir; að eins á Íslandi væri slíkt með þvingun fyrirmunað. Þeir mundu því eðlilega venjast við að skoða það sem »forboðna eplið« girnilegt til fróðleiks, og þegar þessir ungu menn kæmu til útlanda og færu að neyta þessa nýnæmis, sem ekki fengist í fósturlandinu, þá væri þeim miklu hættara að falla flatir fyrir ástríðunum en mönnum, sem vanir eru við freistinguna. Þeir mundu vart verða eins sterkir á svellinu, eins og þeir, sem vanir eru við að halda hóf eða bindindi innan um áfengisnautn og þrátt fyrir lagaleyfi.

Eg veit ekki betur en að hér sé verið að brjóta upp á spánnýrri tilraun, sem hvergi hefir verið gerð annarsstaðar í heiminum jafn freklega. Eg veit, að formælendur aðflutningsbannsins hafa ótæpt haldið því að þjóðinni, að aðflutningsbann væri reynt í Bandaríkjunum, og hefði gefist vel. En þetta er ekki rétt. Í nokkrum fylkjum í Bandaríkjunum hefir verið reynt vínsölubann, en aðflutningsbann sem það, er hér ræðir um, hefir aldrei verið framkvæmt þar. Eg held að það sé ekki holt voru fámenna þjóðfélagi að láta hafa sig eins og nokkurskonar tilraunadýr, ef svo mætti að orði kveða. Öllum ætti að liggja heill Íslands svo þungt á hjarta, að þeim ætti að rísa hugur við að tefla hagsmunum þess og framtíð út í aðra eins óvissu, fyrir tómt hugsjónafum, sem ekki er nema bóla, sem blæs upp og hjaðnar. Því það er víst og satt, að eins holl og góð eins og sú hreyfing er, að innræta mönnum siðgæði, hófstilling og sparneytni, eins óholl og óeðlileg er hver ofstækis- og öfgahreyfing. En slíkar hreyfingar koma alt af við og við, og ganga yfir löndin eins og sóttnæmur sjúkdómur; það er eins og þær læsi sig hug úr hug, sýki mann af manni, en svo smáhjaðna þær aftur, og eftir verður að eins endurminning sögunnar um gauraganginn. Sem dæmi vil eg að eins nefna galdrabrennuhreyfinguna. Vér vitum hvernig hún á sínum tíma gagntók hugi manna og hjörtu, svo að engir þorðu í móti að mæla. Líkt var um ýmsar aðrar ofstækisöldur, sem yfir hafa gengið og aftur horfið, og svo verður og um bindindisofstækið fyr eða síðar. Það er eitt óbrigðult einkenni á öllum ofstækishreyfingum, að þeim fylgir svo mikil hjartveiki og hræðsla, að fjöldi manna, sem í hjarta sínu hefir óbeit á þeim, þorir ekki annað en að fylgjast með og tjá sig samþykka. Einhvers svipaðs kennir í aðflutningsbannshreyfingunni hér, og það mun vera talsverður fjöldi manna, sem fylgja aðflutningsbanni af því þeir þora ekki annað, halda að hitt verði lagt sér til lasts eða komi sér í koll á einhvern hátt eða þá þeir verða svo ofurliða bornir af ákefð og ofstæki hinna trúuðu, að þeir þora ekki að trúa rödd sinnar eigin skynsemi og leiðast blint, þó að þeir skilji ekki. Það hlýtur því eftir hlutarins eðli að vera harla lítið að marka almenna atkvæðagreiðslu um slík faraldsmál, meðan sýkin stendur yfir; það er hætt við að slíkt sanni lítið til eða frá um réttmæti hreyfingarinnar.

Að því er snertir atkvæðagreiðsluna í haust er var um þetta mál, skal eg taka það fram, að þó að talsverður meiri hluti greiddra atkv. yrði með aðflutningsbanni, þá var hann þó alls ekki eins mikill og ráð var fyrir gert, er fyrst var farið að hreyfa því að leita atkvæðis þjóðarinnar um málið. Þá var fyrst gert ráð fyrir ? hlutum, síðar ? atkv. allra kosningabærra manna í landinu. Nú vilja menn láta sér nægja tæpa ? af greiddum atkv., sem hvergi nærri nemur helmingi allra atkvæðisbærra kjósenda landsins.

Ef atkvæðagreiðslan á að sýna, að rétt sé, vegna vilja mikils meiri hluta þjóðarinnar, að leggja óeðlileg höft á persónufrelsi minni hlutans, þyrftu miklu fleiri að hafa greitt atkv., en gert hafa og miklu fleiri með banninu, en raun hefir á orðið.

Þrátt fyrir atkvæðagreiðsluna getur meiri hluti þjóðarinnar verið á móti algerðu banni, og í öllu falli er alsendis óvíst, að meiri hluti þjóðarinnar vilji hafa önnur eins lög og þessi. Þvert á móti; margir sem eru með bannlögum telja þessi lög óhafandi. En óvíst er það, að atkv. hefði fallið eins, hefði málið verið upplýst jafnt frá báðum hliðum. En því fór mjög fjarri.

Eg hefi bent á hættu þá, sem stafað geti af lagabanni þessu, að því er snertir markaðinn fyrir íslenzkan fisk á Spáni — hættu, sem fæstir af þeim, sem atkvæði greiddu í haust, munu hafa gert sér ljósa grein fyrir. Eg skal eigi fara fleiri orðum um það að sinni, en það hygg eg eigi of mikið sagt, að hyggilegast væri að láta mál þetta bíða og liggja í þagnargildi að minsta kosti þangað til hinn nýi ráðherra Íslands hefir leitað sér fullnægjandi upplýsinga um það, hvernig Spánverjar mundu taka lögum eins og þessum. Það ætti að vera þeim viðtakandi ráðherra því ljúfara, sem það gæti verið óþægilegt fyrir hann að þurfa að byrja starf sitt á því, að undirskrifa staðfestingarsynjun eða að gefa út bráðabirgðalög um að nema lögin aftur úr gildi, til þess að bjarga landinu frá fjárhagslegu tjóni, sem það má ekki við.