27.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (1484)

16. mál, aðflutningsbann

Jón Ólafsson:

Eg hefi frá því fyrsta, er þetta mál kom til tals, verið hlyntur aðflutningsbanni. Eg skal játa, að málið er viðurhlutamikið sem stendur, þó ekki svo, að eg sé í nokkrum vafa um að samþykkja höfuðatriði þess. Eg játa það, þótt eg sé hlyntur málinu, að mörg rök hafa fram komið móti því, sem hafa mikið til síns máls og gera það ísjárvert, einkum þó samningurinn við Spán. Hætt er og við, að aðflutningsbann mundi draga úr aðsókn ferðamanna, svo sem hæstv. ráðherra (H. H.) og 1. þm. S.-Múl. (J. J.) tóku fram. Það hefir enn við góð rök að styðjast, að meira hafi verið gert úr því, hve mikið fari út úr landinu fyrir vínföng, en rétt er.

Þó eru ástæðurnar, sem mæla með því, að málið nái fram að ganga, í mínum augum sterkari og meira verðar en þessar, sem nú voru nefndar, og aðrar þær, sem fram hafa komið. Um samninginn við Spán er það að segja, að óvíst, er, hvort aðflutningsbann áfengis muni hafa þau áhrif, sem hæstv. ráðh. (H. H.) taldi. Það sýnist vel mega reyna það; það er þá ekki annað en að breyta lögunum, ef nauðsyn ber til. Hinu atriðinu, aðsókn ferðamanna, geri eg lítið úr; oss mundi ekki verða tilfinnanlegur hnekkir að því, sem úr henni drægi af þessari orsök.

Rangt er að segja, að vér yrðum taldir Eskimóar, ef vér samþyktum bannlög; oss yrði þvert á móti virt það til þroska. Sá er munurinn á því, og að banna villiþjóðum áfengisnautn, að þeim banna aðrir, sem verða að hafa vit fyrir skrælingjum, en hér er það þjóðin sjálf, mentuð þjóð, sem bannið leggur á sjálfa sig af fúsum vilja; hún hefir ekki verið sett undir forráð neins annars þjóðflokks, sem vit hafi fyrir henni.

Það er rétt hjá hæstv. ráðh. (H. H.), að tiltölulega fer lítið til útlanda fyrir áfengi. Eg held jafnvel minna en hann gat um. En þó að lítið fari til útlanda fyrir áfengi, fer þó mikið úr landi. Vera má, að þetta þyki mótsögn, en svo er ekki. Úr landi fer, en þó ekki til útlanda, gagnsemd sú, sem spilt er með verktöf og vinnuspilli, sem af vínnautn stafar. Úr landi fer, en þó ekki til útlanda, öll sú velfarnan, sem spilt er með óhagsýni og óreiðu, sem af vínnautn stafar. Á landinu bitnar alt það heilsuleysi, slys og manndauði, sem at áfengi hlýtst. Það er svo margt og mikið gott, sem úr landi fer, þótt ekki fari til útlanda, fyrir áfengisnautnina, að ekki verður metið til reiknings.

Sú mótbára, að erfitt verði að framfylgja lögunum, hefir mikið til síns máls; þó verður hægara að gæta þeirra en laganna frá 1899, því að hver, sem víns hefir neytt, svo að auðsætt sé, verður dreginn fyrir dómara. Þó að reynt verði að fara kringum lögin fyrst, mun það smáhverfa, eftir því sem þjóðin þroskast. Ef lögin reynast svo, að þeim verði ekki beitt í framkvæmd eða að af þeim stafi óhagnaður í verzlun, þá er auðvelt, að nema þau úr gildi eða breyta þeim. Þessi atriði eru svo vaxin, að ekki verður um þau sagt með vissu, fyr en á reynir. En þjóðin hefir látið ótvírætt í ljósi þann vilja sinn, að gera nú tilraunina.

Nú hefi eg rakið þær ástæður, sem til þess liggja, að eg er málinu fylgjandi. Þó er þetta frv. hálf-ótækt alveg óbreytt. Eg þykist vita, að virðul. flutningsmenn frumv. muni ekki hafa samið það, og muni ekki verða andvígir því, að gallarnir séu lagaðir.

Eg hefi nokkuð einkennilega aðstöðu í þessu máli. því að kjósendur mínir eru mótfallnir aðflutningsbanni. En eg hefi jafnfrjálsar hendur alt að einu, því að eg sagði þeim, að eg mundi greiða atkvæði með því, svo að þeir hafa ekki keypt köttinn í sekknum.