08.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

6. mál, aðflutningsgjald

Eiríkur Briem:

Það er að bera í bakkafullan lækinn, að fara að taka til máls í þessu máli. — Það er að eins eitt atriði viðvíkjandi þessari breyt.till., sem eg vildi minnast á. Það er, að þegar um tollgreiðslu er að ræða, þá eigum vér öll skil undir samvizkusemi þeirra manna, sem eiga að telja tollskyldu vörurnar fram. En eg álít, að ekkert geti fremur dregið úr samvizkusemi þessara manna, heldur en einmitt sú tilfinning, að þeir séu hafðir fyrir ójöfnuði. Og eg er hræddur um, að ákvörðun sú, er þessi breyt.till. felur í sér, verði skoðuð sem ójöfnuður, og gæti haft töluverð áhrif einmitt til þess að veikja samvizkusemi manna. Þetta er mjög varhugavert atriði, og gæti kostað miklu meira en það sem vinst með breytingartillögunni.