30.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (1496)

16. mál, aðflutningsbann

Framsögumaður meiri hl. (Björn Þorláksson):

Við framhald 1. umr. um þetta mál, skýrði eg frá því, að nefndin hefði klofnað í þrjá parta. Skal eg fyrst minnast á frumv. til laga um aðflutningsbann, eins og það fyrst kom fyrir. 4 menn úr nefndinni aðhyltust frumv. með örlitlum breytingum, og skal eg í fám orðum lýsa yfir því, er meiri hl. byggir álit sitt á.

Ástæður okkar bannmanna eru tvær; hin fyrri sú, að við skoðum áfengið sem eitur, eins og t. d. morfin og ópíum, en sú önnur, að við lítum svo á, að hér í þessu máli, sem og öðrum, eigi vilji þjóðarinnar hiklaust að ráða, og nú er augljóst, að þjóðin vill losna við áfengisbölið. —

Það er ekki við, sem höfum fundið það upp, að áfengi sé eitur; frægir læknar og vísindamenn víðsvegar í heiminum eru á sama máli. Eg skal játa það, að áfengi sé ekki eins sterkt eitur og morfin og ópíum, en það er þó enn verra eitur. Þeir menn, sem á annað borð byrja að neyta áfengis, vilja alt af hafa meira og meira, þar til þeir að lokum komast svo langt, að þeir geta ekki hætt.

Öll áfengisnautn ruglar dómgreindina, sljófgar minnið, deyfir tilfinningu mannanna. Í útlöndum eru til hagfræðisskýrslur, sem sýna glögglega, að alkóhólið gerir miklu meira tjón, en allar eiturtegundir til samans. Það sem þetta frumv. heimtar, er það, að áfengi sé ekki til hér á landi, í neinu drekkandi ástandi, nema í lyfjabúðum.

Þá vil eg snúa mér að hinu, sem er aðal-atriðið í þessu máli. Það er vilji þjóðarinnar, að aðflutningsbann komist hér á. Þjóðin íslenzka vill losna við þetta eitur. Hún hefir smátt og smátt verið að komast til fyllri og ljósari meðvitundar um, hvað áfengi eiginlega væri, og þegar sú rétta skoðun er fengin á því máli og allur þorri viðurkennir og álítur, að alkóhólið sé eitur, sem ekki eigi að vera til í drekkandi ástandi annarsstaðar en í lyfjabúðum, þá er ekki nema sjálfsagt og eðlilegt, að þjóðin vilji vera laus við þetta eitur og fyrirskipa, að það skuli að eins vera í höndum þeirra, er með eitur kunna að fara, lækna og lyfsala, en ekki annara manna. Meiri hluti þjóðarinnar, já mikill meiri hluti hennar, vill losna við áfengisbölið. — Atkvæðagreiðslan í haust 10. sept.br. sýnir það og sannar full ljóslega. — Fullir ? af alþingiskjósendum í landinu lýstu því yfir, að þeir vildu fá aðflutningsbann, vildu losna við áfengiseitrið. Þótt ekki væri tekið tillit til neins annars, en þessa atkvæðafjölda, þá nægir það eitt til að sýna, að frv. þetta hvílir á réttum grundvelli, og að það á að ná samþykki löggjafarvaldsins og verða að lögum, því að meiri hlutinn á að ráða eins í þessu máli sem öðrum. En hér við bætist sá ómótmælanlegur sannleikur, að miklu meir en ? af landsmönnum vilja bannlög. Eg held eg megi fullyrða, að mest allur hluti kvenþjóðarinnar sé máli þessu fylgjandi, um 90 af hverju hundraði að minsta kosti eða 9/10 hlutar allrar kvenþjóðarinnar. — Eg skal ekki kasta þessu fram án þess að reyna, að rökstyðja það nokkuð. Eg skal leyfa mér, að minna háttv. deildarmenn á þingið 1895. Þá sendu 7600 konur áskorun til þingsins um, að leiða í lög vínsölubann. Það er það langstærsta undirskriftaskjal, sem til þingsins hefir komið. Undirskriftir þessar höfðu það í för með sér, að málið var tekið til umræðu, þegar á þinginu, en málið sofnaði þar, en við bindindismenn vorum þá ekki komnir svo langt þá, að við þyrðum að fara fram á aðflutningsbann. Bindindismenn hafa fjölgað svo síðan, að segja má, að nú séu þeir hálfu fleiri, og af því mun óhætt vera að draga þá ályktun, að nú væri hægt að fá miklu fleiri kvenmenn til að skrifa undir áskoranir til þingsins; ef þetta mál hefði verið lagt fyrir íslenzku kvenþjóðina, þá mundi víst minst 9/10 hafa verið með oss.

Eg skal enn fremur minna á, að af fleiru má marka það, hve mikill meiri hluti þjóðar vorrar er aðflutningsbanni hlyntur. Ungmennafélagið hefir sett það á sína stefnuskrá. Á landinu eru um 20,000 karlmenn yfir 25 ára. Ef eg tel af þeim tiltölulega jafn marga og þá, sem greiddu atkvæði með aðflutningsbanni í haust, nefnil. ?, þá verða það 12,000. Af konum eru yfir 20,000 á landinu á sama aldri, og geri maður ráð fyrir því, að 9/10 þeirra sé okkur fylgjandi í þessu máli, þá verða það 18,000 kvenna. Þá veit maður, að 14,000 unglingar eru á aldrinum frá 15 til 25 ára, og þeir mundu flest allir verða máli þessu sinnandi, og eg verð að álíta, að í þessu máli eigi að taka tillit til hvers fermds unglings. Hans atkvæða ætti að leita alveg eins og eldri manna fult eins og t. d. til þeirra alþingismanna, sem fjötraðir eru af gömlum hleypidómum um áfengið og vanans sterku böndum. — Af 15 til 25 ára gömlum mönnum má því gera ráð fyrir, að um 12 þúsundir yrðu þá með aðflutningsbanni. Tölur þessar sýna þá, að af þeim 54,000 landsmanna, sem eru yfir 15 ára mundu 42,000 vera með aðflutningsbanni, með öðrum orðum 80 af hundraði hverju. Það er því full rökstutt, er eg held fram, að 4/5 af öllum landsmönnum yfir 15 ára séu með banninu. Þetta nægir, vona eg, til að rökstyðja það, að það sé þjóðarvilji, að áfenginu verði algerlega útrýmt úr landinu.

Þá skal eg víkja máli mínu að sjálfu frumvarpinu. Það sem það bannar, er innflutningur, sala, veiting og gjafir áfengra drykkja. Eg veit það vel, að sumir, sem þykjast vera bannvinir, hneykslast á því, að ekki megi gefa áfengi, en eg get ekki séð annað, en að það sé réttmætt, að halda því fram, þegar þess er gætt, að áfengið er eitur. Það er heldur ekkert nýmæli, eins og sumir kunna að ætla. Í bannlögum Finna, sem samþykt hafa verið af þingi þeirra, er svo fyrirmælt, að það að gefa áfengi sé sama sem að selja. Það mundi líka verða afar viðsjárvert að leyta áfengisgjafir. Aðalatriði laganna er, að banna innflutning á áfengi, en ef það hins vegar ætti að vera leyfilegt, að gefa og veita án borgunar, þá yrði það framvegis að eins mögulegt með óleyfilegum innflutningi eða þá með því, að menn mundu byrgja sig uppi með vínföng fyrir alt lífið, og ekki yrði það síður hættulegt; margir mundu, er þeir hefðu svo miklar birgðir — neyta þess í óhófi, en það mundi hafa hinar verstu afleiðingar í för með sér. Slíkt ákvæði um það, að leyfa áfengisgjafir, álít eg því blátt áfram háskalegt. Það mundi hafa það í för með sér, að miklu auðveldara mundi vera, að fara í kring um lögin, og væri þá illa á stað farið, því að það er ókostur hverra laga, að það vald, sem sett hefir lögin, skuli eins og vísa á leiðir til þess, að komast undan og hjá ákvæðum sjálfra laganna. Þetta ákvæði gegn áfengisgjöfunum miðar því beint að því, að gera lögin miklu einfaldari og léttari í framkvæmdinni.

Að því er frv. sjálft snertir þá hefir því talsvert verið breytt frá því sem það var við 1. umr. Þannig hafa sektirnar verið færðar niður um helming og mun nú varla með sanngirni verða sagt, að þær séu svo ýkjaháar. Annars lit eg svo á, að aðalatriðið sé ekki sektahæðin, stærð sektanna, þótt svo lágt megi fara í niðurfærslu sektanna, að lögin yrðu hreinustu káklög — þá væri betra að hafa engin bannlög. Þá hefir 2. gr. verið breytt lítið eitt. Hún hljóðaði um heimild til að flytja til landsins áfengi, sem ætlað væri til iðnaðar og eldsneytis, en mátti misskilja svo, að ákvæði hennar um að gera áfengið óhæft til drykkjar að eins skyldi ná til þess áfengis, sem ætlað væri til iðnaðar. Nú höfum við breytt því ákvæði þannig, að það nær líka til áfengis til eldsneytis. — Það var sjálfsögð breyting. — Að prestar og prófastar mættu flytja inn messuvín var felt að ráði biskups. 8. gr. höfum við breytt að orðalagi og orðað hana greinilegri. Oss þótti nauðsynlegt að slá því föstu, að engar undantekningar skyldu eiga sér stað. Að því er snertir sölu lyfsala eru ákvæðin sett að ráði landlæknis. Eg vona, að menn hafi ekki á móti, að þeim sé leyft að fara með áfeng lyf og landlæknir sá, sem við höfum nú er svo tryggur bindindisvinur, að hann mun setja nánari ákvarðanir, sem koma í veg fyrir að þetta leyfi verði misbrúkað. Þá höfum við bætt við nýjum lið við 9. gr. Vér vildum sýna sanngirni þeim veitingamönnum, sem veitingaleyfi ekki er útrunnið hjá og að landssjóður borgi tiltölulegan hluta hins upphaflega leyfisgjalds.

Við 19. gr. hafa verið gerðar allmiklar breytingar, að því er snertir uppljósturslaunin. Oss fanst réttara að færa þau niður og hæfilegt að uppljóstrarmaður fengi að eins ?. Við skoðuðum það svo, að það mundi ofurlítið hvetja menn til að koma upp brotunum, án þess þó að nokkur mundi ætla sér atvinnu af slíku. Það sem einkennir þessa þjóð er meðal annars einkum það, hve seinir og ófúsir menn eru að koma upp lögbrotum um aðra. Það er eins og menn telji það ljótt að stuðla að því að lögin verði framkvæmd, samkvæmt eðli og anda þeirra, en slíkt hlýtur að veikja virðing manna fyrir lögunum og hlýðni við þau og er slíkt næsta óheppilegt. — Eg þykist vita, að sumir muni segja, að þessi uppljósturslaun geri það að verkum, að menn fari að »spekúlera« í breyzkleika náungans, en það nær ekki neinni átt, þar sem sektirnar eru færðar svo mikið niður og uppljósturslaunin að eins ? af þeim niðurfærðu sektum. — Þá vil eg að síðustu minnast á þann tíma, sem lögin eiga að koma til framkvæmda. Það er gert ráð fyrir, að það verði 1. jan. 1912. Það getur vel verið, að frestur sá hefði mátt vera styttri, og það eru víst flestir bindindismenn á þeirri skoðun, því að það er óneitanlega mikill hagur fyrir þjóðina að losna við áfengið sem fyrst, þar sem vér við það sleppum við mikið tjón, en vér höfum unnið það til samkomulags að hafa frestinn svona langan. Fer eg svo ekki fleiri orðum um málið að sinni.