30.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í B-deild Alþingistíðinda. (1499)

16. mál, aðflutningsbann

Framsögumaður meiri hlutans (Björn Þorláksson):

Eg hefi ekki margt að segja um ræðu frmsm. minsta hlutans (J. Þ.) Hann taldi frv. þetta ósamboðið siðuðum þjóðum.

Einnig virtist það fá honum undrunar, að eg kallaði frv. Finna lög; en nú get eg frætt þann háttv. þm. á því, að hér hjá oss eru frv. kölluð lög frá alþ., er þau hafa hlotið samþ. beggja deilda.

Eg nefni Finna, til þess að sýna, hve ósæmilegt það er, að segja að annað eins frumv. og þetta sé ekki samboðið siðaðri þjóð. Finnar eru að mörgu leyti fyrirmyndar þjóð, og væri oss engin skömm að líkjast þeim.

Þá talaði háttv. frmsm. minsta hlutans (J. Þ.) einnig um það að lög þessi gengi of nærri eignarrétti einstakra manna, Það held eg sé fullkominn misskilningur.

Einnig fórust honum orð á þá leið, að hér væri verið að koma upp nýrri, launaðri stétt manna.

Þetta eru öfgar því einmitt meiri hlutinn sjálfur færði ákvæðið um þetta efni niður, svo að hér getur ekki verið um nein veruleg laun að ræða. Þótt honum þætti það skrítið að sumt skyldi ganga til uppljóstursmanna, get eg bent á, að slík lög hafa áður verið samin hér á alþ. Svo var ákveðið í lögunum frá 10. febr. 1888, fyrstu lögum okkar, sem lögðu nokkurt verulegt haft á vínsölu. Hann brúkaði líka eitt af þessum stóru orðum, sem ekki ættu að heyrast hér á þingi nefnilega þau: að við, með lögum þessum, gerðum okkur að skrælingjum eða Eskimóum. þetta átti að vera skammaryrði í munni þm.; þó væri máske engin skömm að líkjast þeim í siðferði, því landi vor Vilhjálmur Stefánsson, mikill fræðimaður, sem nú dvelur meðal Eskimóa, heldur því fram að þeir séu mjög vandaðir og siðferðisgóðir menn. Menn mættu líka gá að, hvað »skrælingi« þýðir, að minni ætlun er það sá sem kallar, æpir hátt, og í því tilliti mætti ef til vill kalla þá skrælingja, er hafa stærst og verst orð og vekja mesta háreysti. Þá skal eg að gefnu tilefni líka benda á það, að það er ekki verkefni bannlaganefndarinnar, að afla fjár fyrir tekjumissinn, er leiddi af aðflutningsbanni, heldur heyrir það undir verksvið skattamálanefndarinnar.

Þá vil eg minnast á breyt.till. minsta hluta nefndarinnar (J. Þ.). Sumar miða þær til bóta, og er ekki óhugsanlegt, að einhverjar þeirra verði teknar til greina við 3. umr. Aftur raska sumar beinlínis grundvelli frumv. Niðurlagsákvæðið um það, að lög þessi skuli bera undir þjóðina og atkv.gr. fara fram á ný, finst mér algerlega óþarft og ekki viðeigandi. Mér fanst háttv. þm. (J. Þ.) eða minsti hlutinn, gera lítið úr atkv.gr. á síðastliðnu hausti; en til þess hefir hann engan rétt, og eg mótmæli því hátíðlega, að sú atkv.gr. hafi ekki lýst sönnum og eindregnum vilja þjóðarinnar.

Nú skal eg þá snúa mér að háttv. framsm. minni hlutans; eg þarf ekki að tala um ræðu hans, því hún var í fullu samræmi við nefndarálitið. Hann segir svo framsm., háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.), að einkennilegt sé, að maður skyldi vera tekinn í nefndina, er ekki hafi verið kosinn af þingdeildinni. Víst þykist eg vita, að ógjarna muni hann hafa viljað að eg ætti þar sæti. En nú er, sem er, og verður ekki viðgert. En fyrst eg hefi verið svo heppinn að komast hér að, skal eg reyna að nota tækifærið til að reyna að hrinda nokkrum blekkingum hans og villum í þessu máli.

Ekki er það mín skuld, þótt háttv. framsm. hafi ekki meiri þekkingu til að bera í þessum efnum, en nú kemur í ljós.

Hann hefir altaf reynt að vera þrándur í götu þessa velferðarmáls, er hér ræðir um, mér liggur við að segja staðið oft í slíkum sporum í tilliti til annara velferðarmála þessarar þjóðar, og nú stendur hann.

Eg get frætt þennan háttv. framsm. (J. J., S.-Múl.) á því, að þessi sannindi, sem vér aðflutningsbannsvinir berjumst fyrir, eru altaf að fá meiri og meiri alþjóða viðurkenningu.

Bannlagaleiðin er stöðugt að verða almennari, en hún hefir verið. Finnland hefir samþ. aðflutningsbannlög, og mörg fylki Bandaríkjanna hafa um lengri tíma búið undir bannlögum. Skal ekki fara út í það, hvort heldur eru bannlög á sölu eða aðflutningi.

Þá stendur í þessu sæla minni hluta áliti, að bannlög eigi ekki að ganga svo langt, að varðveita fullveðja, fullþroskaða og fullvita menn fyrir sjálfum sér. En hvenær eru menn andlega og siðferðislega fullþroskaðir ? Og þó menn séu fullvita yfir höfuð, og jafnvel miklir vitmenn í sumu, geta þeir í einstöku greinum verið óvitar, svo að þjóðfélagið verði að taka í taumana við þá. Eg held að sumir okkar góðu gáfumenn hefði sannarlega mátt vera þakklátir fyrir, hefði þjóðfélagið í tíma viljað veita þeim stuðning í þessu efni.

Það er álit minni hlutans, að bannlögin beri vott um þroskaleysi þjóðarinnar. Eg gæti kannast við það, ef þessu máli hefði hvergi í heiminum annars staðar en hér á landi verið hreyft. En þar sem að bannlögum hefir verið unnið, ekki einungis á Finnlandi, eins og eg hefi áður bent á, heldur einnig á Bretlandi og í Bandaríkjunum, og þar sem óhætt er að segja, að ekkert mál standi ofar á dagskrá heimsins en bannlögin, þá finst mér það vera hjákátlegt og óvit mikið, að bregða Íslendingum um þroskaleysi, þótt þeir leyfi sér að halda í sömu stefnu í þessu máli og helztu mentaþjóðir heimsins, og engin skömm væri fyrir Íslendinga, að verða á undan öðrum í þessu efni og gefa umheiminum góða og gagnlega fyrirmynd.

Þá talar minni hlutinn um þá stefnu, sem sé hafin í Noregi gegn bannlögum og fer þar eftir ummælum blaðs, sem kom hér um daginn. En hér er tveimur málum blandað saman, og þess vegna ekki mikið á þeim að byggja. Sannleikurinn er sá, að bruggarar í Noregi hafa nýlega verið sviftir styrk, sem þeir hafa haft úr landssjóði til áfengisframleiðslu. Þess vegna hafa þeir hafið baráttu gegn Good-Templurum. Af þessu eru svo þau ummæli sprottin, að helztu menn þjóðarinnar norsku sé á móti bannlögum og eru tilnefndir í áliti minni hlutans þeir Michelsen, Björnson, prófessor Nansen, prófessor Sars o. s. frv. Eg hefi ekki »autoritets«-trú og byggi ekki mikið á nöfnum, en að einmitt Nansen sé full-ljós skaðsemi áfengisins, sýnir það, að hann bannaði að hafa áfengi í heimskautaför sinni og kom þar fram sem bannlagamaður og væri ekki ólíklegt, að hann væri með bannlögum yfir

höfuð. Úr því að minni hlutinn nefnir nöfn, þá get eg bent á það, að eg var á fundi í gær, þar sem tekið var fram, að helztu menn landsins væru með aðflutningsbanni, svo sem landlæknir, biskup, ráðherraefnið og háyfirdómarinn. Eg vil sérstaklega leggja áherzlu á hinn síðastnefnda, af því að maður honum náskyldur bað um á fundinum í gær að hlífa bróður sínum við þeirri ærumeiðing, að kalla hann aðflutningsbannlagamann, en síðan hefi eg séð skjal, sem háyfirdómarinn hefir skrifað undir og þar sem hann tjáir sig vera fylgjandi slíku banni.

Þá talar minni hlutinn um tekjumissinn og reynir að benda á, að uppbót áfengistollsins, sem nú er, muni eftir að bannlögin koma í gildi, mestmegnis lenda á þeim fátækustu. Þetta er ekki á neinu bygt. Við getum ekki séð enn þá, hvernig þessu verður komið fyrir, en skattanefndin hefir látið það í ljósi, að ekki muni verða miklum vandkvæðum bundið að finna gjaldstofn til að bæta landssjóði tekjumissi af aðflutningsbanni. Þessi ástæða er því fallin. Þá hefir minni hl. lýst yfir, að hann væri því hlyntur, að áfengistollurinn rynni í heilsuhælissjóð. Eg teldi það ósæmilegt að verja áfengistollinum, þessum blóðpeningum, til heilsuhælisins, og held að finna mætti mörg og miklu betri ráð til þess að halda því uppi. Þá benda þeir á, að verja víntollinum til þess að efla sannarlegt sjálfstæði landsins, og skal eg með leyfi háttv. forseta lesa upp örfáar línur, sem hljóða svo:

»Væri t. d. myndaður sérstakur víntollssjóður, til þess að efla sannarlegt sjálfstæði landsins í verzlun og viðskiftum við aðrar þjóðir, til þess að eignast skip til millilandaferða og flutninga, til þess að eignast sjálfir skip til strandvarna o. fl. þá mundi enginn geta neitað því, að hér væru þarfaverk unnin með léttu og ótilfinnanlegu móti«.

Mig furðar á því, að þm., sem setið hefir á þingi nær 2 tugi ára, skuli ekki hafa komið með þessa tillögu fvr. Annars skoða eg þetta svo, að því sé kastað fram til þess að eins að spilla fyrir málinu.

Þá hefir minni hl. hneykslast á því, að meiri hl. nefnir áfengisnautnina þjóðarböl. Sjálfsagt væri hægt að sýna með tölum, að mjög mikið ilt leiðir af áfengisnautninni hér á landi og að hér er um sannarlegt þjóðarböl að ræða, en þó vil eg taka það fram, að hér er ekki einungis að ræða um þjóðarböl, heldur heimsböl, því áfengis er als staðar neytt, og als staðar stafar ilt eitt af því.

Það lítur út fyrir, að minni hl. hafi aldrei litið í neinar skýrslur eða bækur um þetta efni, en eg er svo heppinn að eiga bók með skýrslum frá mörgum löndum einmitt um þetta efni og skal eg lána framsögumanni minni hl. bókina, ef hann vill, til þess að hann geti fengið nýja og betri þekkingu um málið.

Þá vill minni hlutinn segja, að þjóðarviljinn hafi ekki komið fram 10. sept. í haust. Það er staðreynd fyrir því að ? allra, sem greitt hafa atkv., hafa verið með aðflutningsbanni og atkvæðagreiðslan var leynileg og algerlega frjáls. Auðvitað er það satt, að það, að þjóðin greiðir svona atkv., að vilja hafa aðflutningsbann, er mikið að þakka því fé, sem veitt hefir verið úr landssjóði og sem háttv. l. þm. S.-Múl. (J. J.) hefir sjálfur greitt atkv. með, og það fé hefir sannarlega borið góðan ávöxt. Þá er minni hlutinn að tala um ofsa og biðja þingið að varðveita þá menn sem eru á móti banninu fyrir kúgun og eyðileggingu, sem tillögur bannlagavina hafi í för með sér. Eg held að það liggi beinast við að tala um ofsa frá hálfu minni hlutans, því að hann heldur því fram, að minni hlutinn eigi að ráða lögum og lofum, þvert á móti viðtekinni reglu um allan heim, og sem einnig kom hér fram í stóru máli á þessu þingi; þegar ráðherrann sagði af sér völdum, þá beygði hann sig í fyrir meiri hlutanum. Hér kemur nefnilega ofsi og ofstæki fram hjá minni hlutanum og kemur það vel í ljós hjá honum, þar sem hann segir í bráðabirgðarákvæði sínu, að ? atkvæðisbærra manna skuli ráða því, hvort lög um aðflutningsbann skuli verða samþ. Þá er í þessari till. minni hlutans gert ráð fyrir, að lögin komi ekki í gildi fyr en 1916 og það af þeirri ástæðu, að þá sé útrunninn veitingaleyfistími ýmsra þeirra, sem nú verzli með vín. Eg veit ekki betur, en að margir þeirra, sem vín selja eða vínveitingaleyfi hafa, geti endurnýjað það á 5 ára fresti og gætu þeir verið búnir að leysa leyfi aftur fyrir 1916, svo að þýðingarlaust er að binda framkvæmd vínsölubannsákvæðanna við það ár. Hvað því viðkemur að greiða atkv. á ný, þá vil eg segja, að sú atkvæðagreiðsla sé meiningarlaus, þar sem atkvæði hafa farið fram fyrir rúmu missiri. Í Finnlandi fór engin atkv.-greiðsla fram og tóku löggjafar þjóðarinnar sér það vald, að samþykkja aðflutningsbannslög.

Meiningin hjá minni hlutanum er að drepa málið, og hefði því alveg eins getað sagt, að atkvæðagreiðsla skyldi fara fram árlega, eða að lögin mætti ekki ganga í gildi á meðan 3 Jónar væru á móti þeim. Í því hefði verið meining. Hvað snertir tillögur minsta hluta nefndarinnar, þá legg eg til að þær verði feldar við þessa umræðu, þær gætu kannske sumar af þeim komist að við 3. umr. málsins.

Vona, að deildin leyfi málinu að ganga óhindrað til 3. umr.