30.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

16. mál, aðflutningsbann

Skúli Thoroddsen:

Eg verð að geta þessa, að mér er ánægja að því, að þetta mál kom fram á þingi, og óska að það fái góðan byr.

Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.), áleit aðflutningsbannið skerðing á eignarrétti; en ekki get eg verið honum samdóma um það, því eg sé ekki, að menn þurfi að bíða eignatjón af því, þótt lög þessi verði nú samþykt, þar sem nær þrjú ár líða, unz þau ganga í gildi, og ætti því öllum að vera hægðarleikur, að haga áfengiskaupum sínum þannig, að þeir hafi eigi miklar birgðir við áramótin 1911 og 1912, og þótt þeir, sem áfengis neyta, gerðu sér þá glaðan dag á gamlárskvöld 1911, hafa víst mótstöðumenn bannsins ekkert á móti því.

Framsögum. minni hlutans (J. J.) taldi þá eiga rétt til skaðabóta, er vínsölu- eða vínveitingarleyfi hafa, er lög þessi öðlast gildi; en menn þessir borga einungis víst árgjald í landssjóð, ef þeir nota leyfið, og virðist því eigi ósanngjarnt, að líta svo á, sem það hafi verið þegjandi áskilið, að leyfið gæti þó því að eins gilt allan tímann, að sala áfengis yrði eigi óheimiluð af löggjafarvaldinu. Þingið hefir t. d. með lögum bannað sölu ósútaðra húða, er var talsverður hnekkir fyrir kaupmenn, sérstaklega þar sem erfitt er að fá innlent skóleður, og mintist þar enginn á skaðabætur. — Annars er það dómstólanna, að skera úr þessu atriði, ef til kemur.

Þá áleit háttv. þm. Rvík. (J. Þ.), að lög þessi gengju of nærri persónulegu frelsi manna. Svo má segja um mörg lög, því að oft verður að takmarka hið persónulega frelsi af því, að almenningsheill krefst þess. — Nú vitum vér allir, hvílíkt tjón stafar af áfengisnautninni, bæði í efnalegu og siðferðislegu tilliti, og hvaða eymd og hugraunir hún þráfaldlega bakar konum og börnum drykkjumannanna, auk þess skaða, sem áfengisnautnin bakar sveitarfélögum og landinu í heild sinni. Eg veit eigi, hvar ræða er um almenningsheill, ef eigi þegar um útrýmingu áfengisbölsins ræðir.

Algerður misskilningur lýsti sér í ræðu háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) er hann lét í ljósi, að menn ættu með að fara með sjálfa síg, eins og hverjum þeirra þóknaðist. Þetta er algerlega rangt. Vér eigum allir, hver um sig, að vera starfandi meðlimir þjóðfélagsins, og það á því heimtingu á, að menn séu eigi eins og skynlausar skepnur, heldur verkfærir, er sjúkdómar eigi hamla. En hversu marga nýta menn hefir vínið eigi svift starfslöngun og þoli?

Þá taldi sami maður það varhugavert, hve afar-há laun væru ætluð fyrir uppljóstur, er gætu valdið því, að ýmsir færu að gera sér það að féþúfu, að koma upp um náungann, og virtist honum það spilla hugsunarhætti manna, gera menn að verri mönnum, að vera að segja eftir öðrum. — En þessi hugsunarháttur, sem er mjög almennur hér á landi þarf að hverfa, og það er meira að segja bezt fyrir þá, er svívirðileg lögbrot fremja, því vorkunnsemi við slíka menn er á röngum stað, og vel getur farið svo, að maðurinn sjái að sér og bæti ráð sitt, ef upp um hann kemst, en sökkvi ella enn dýpra.

Mér fellur það illa í áliti minni hlutans, að kalla þá, sem lögin brjóta: »sjálfstæða og góða drengi«, því þetta er ekki, og getur aldrei orðið rétt.

Hinn háttv. minni hluti skírskotar til félagsskapar þess, sem verið er að koma á fót í Noregi, og byggir mikið á því, að við hann eru ýmsir nafnkunnir menn riðnir. — En það, að þessir menn ætla sér, að berjast gegn útrýmingu áfengis í Noregi, sýnir, að þegar um réttan skilning á skaðsemi áfengis ræðir, þá eru þeir sjálfir skamt á leið komnir í þessu efni, hvað sem öðru líður, og eiga því eigi að vera til fyrirmyndar, heldur þvert á móti til viðvörunar.

Sú mótbára, að landssjóður bíði hnekki, vegna þess, að áfengistollurinn fellur úr sögunni, það er rétt. En þar sem þetta er samkv. atkv.gr. sjálfrar þjóðarinnar, verður að líta svo á, sem hún sé fús á, að leggja á sig þær byrðar, sem útrýming áfengisins óumflýjanlega hefir í för með sér. Nú stendur svo vel á, að ný skipun tolla- og skattamála er í undirbúningi, og verður þá að sjálfsögðu ráðin bót á þeim tekjumissi, sem hér um ræðir.

Háttv. 1. þingm. S.-Múl. (J. J.) tók það fram, að þjóðin hefði ekkert sagt um þetta frumv. Það er að vísu satt, þjóðin hefir ekki sagt neitt um það, eins og það er orðað í einstökum greinum, en sú spurning hefir verið lögð fyrir hana, hvort hún vildi útrýma áfenginu úr landinu eða ekki. Hitt varð hún að sjálfsögðu, að ætla þinginu, eða skoða sem hlutverk þess, að taka ályktun um hin einstöku atriði málsins, eða koma því í þann búning, sem bezt þætti fara á. — Hvað hegningar-ákvæðin snertir, skiftir og í rauninni ekki miklu, hvort þau eru hörð eða lin.

Þá lagði hinn háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) mikla áherzlu á það, að þessi lög væru svipa á þjóðina, í stað þess, að framþróun alls siðgæðis ætti að spretta af innri hvöt; en eg vona, að hinn háttv. þingm. og aðrir verði mér samdóma um það, að all-oft sé alls ekki unt, að knýja fram siðgæði með góðum fortölum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að menn geta varið löngum tíma, til þess að tala um fyrir drykkjumanni, og þó ekki unnið neitt á. Drykkjumaðurinn lætur sér ekki segjast af öðru en þvingun, nema ef vera kynni, að hann einhvern tíma fengi viðbjóð á athæfi sínu, ef hann væri svo djúpt fallinn, að hann væri sí og æ liggjandi í rennusteinunum, og þó eigi nærri einatt, sem það hrífur.

Hinn háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) sagði, að umræður um þetta mál hefðu verið mjög einhliða hér á landi, eða að eins snúist um aðra hlið þess. En það er sannarlega ekki sök aðflutningsbannsmanna, þótt svo hafi verið. Það er að eins vottur þess, að hinir hafa ekki treyst sér til, að hrekja mál bindindismanna eða eigi hirt um það, og þess vegna haldið að sér höndum.

Á hinum háttv. þingm. S.-Þ. (P. J.) var svo að skilja, sem hann vildi fara hér milliveg: vildi hegna fyrir, ef menn væri svo ölvaðir, að þeir fremdi brot á velsæmi í almanna augsýn, og láta þar við sitja. — En því verður eigi neitað, að enn betra er, að glæpir séu með öllu hindraðir, verði því komið við; það er t. d. ekki hægt að hindra þjófnað, jafnvel sjaldnast, þótt menn hafi lokaðar hirzlur, en ákjósanlegra mundi það þó þykja, ef tök væru á. — Og að því er áfengisnautnina snertir, þá eru tök á því.

Eg skal svo ekki tala meira um þetta mál, en vona, að tillaga meiri hlutans verði samþykt; en einstök atriði, sem athugaverð kunna að þykja, mætti laga við 3. umræðu, ef þurfa þykir.

Að því er till. minni hlutans snertir, (J. J. S.-Múl. og J. J. N.-Múl.) miða þær í raun og veru ekki að öðru, en að fella.

Eg skal að lokum geta þess, að það er svo langt frá, að bannið setji skrælingjamót á Íslendinga, að það yrði þeim miklu fremur til sóma, að verða á undan flestum öðrum þjóðum í þessu efni.