30.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1065 í B-deild Alþingistíðinda. (1507)

16. mál, aðflutningsbann

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg verð að lýsa yfir því, að eg er fylgjandi aðflutningsbanninu og ætla að greiða atkv. með málinu. En þó eg geri það, vil eg ekki vera talinn samsekur í öllum þeim ósannindum og vitleysum, sem færðar hafa verið fram hér í salnum til stuðnings málinu. — Eg byggi ekki fylgi mitt á þeim rökum, og tel þau fremur til að spilla en bæta fyrir málinu. Í þessu máli stendur svo einkennilega á fyrir mér, að eg er hér gagnstæður vilja meiri hluta kjósenda minna, sem greiddu atkv. í haust móti aðflutningsbanni. En eg sagði þeim fyrirfram, að eg mundi greiða atkv. með málinu, hvað sem þeir gerðu. Eg sagði um daginn, að eg greiddi atkv. með málinu »með hálfum huga«, og kæmi það til af því, að eg óttaðist að enn væri, ef til vill, of snemt að samþ. þetta mál, og því væri hætt við að það næði, ef til vill, ekki tilgangi sínum.

H. frms. meiri hl. (B.Þ.) sagði, að aðflutnings-bannlög væru komin á í nokkrum ríkjum í Bandaríkjum Norður- Ameríku, en það er ósatt; svo langt hafa Bandaríkjamenn ekki komist og komast líklega aldrei, því að stjórnarskrá Bandaríkjanna er því til fyrirstöðu; en henni er nú orðið talið óvinnandi vegur að breyta. Svo er mál með vexti, að ekkert ríki í Bandaríkjunum hefir heimild til að banna eða leggja nein höft á viðskifti við hin ríkin. Ríkið Kansas er eina ríkið, er samþ. hefir aðflutningsbannlög áfengra drykkja, en hæstiréttur Bandaríkjanna dæmdi lögin ógild sakir bága við stjórnarskrá Bandaríkjanna. Hver maður í Kansas getur keypt sjálfum sér vín frá öðru ríki; en verzlun með það er bönnuð þar, eins og í fleiri ríkjum; en það er alt annað en aðflutningsbann.

Jafnósatt er það, sem annað, að ekki megi flytja áfengi inn í vínsölubannsríkin, heldur að eins gegn um þau. — Það er ekkert ríki til í Bandaríkjunum þar sem ekki sé heimilt að kaupa sér vín til eiginna nota. 15 ríki munu hafa komið á hjá sér vínsölu- og veitingabanni, en 10 hættu við það aftur. Og í öllum vínsölubannsríkjunum er vín selt, meir og minna opinberlega. Er þetta eftirdæmi til að breyta eftir? Vínsölubannslögin hafa aldrei náð tilgangi sínum í Bandaríkjunum, og það hafa þau heldur aldrei gert hér. Vínsölubannslögin hafa hér (og annarstaðar) reynst alveg gagnslaus til að hefta vínnautn. Hér hafa þau að eins leitt til að svifta landssjóð tekjum; en vínnautnin fer heldur vaxandi en þverrandi, þó að nú sé drukkið á annan hátt en áður.

Sakir þess er eina ráðið til að útrýma hér vínnautn algert aðflutningsbann — ef það hefir þá svo næga stoð í réttarmeðvitund þjóðarinnar, að lögin verði ekki dauður bókstafur, eins og vínsölubannslögin.

En er það siðferðislega réttmætt að leggja slík höft á frelsi þeirra manna, er neytt geta víns sér að skaðlausu? Það er vandaspurningin úr að leysa. Eg játa, að þetta er persónulegt ófrelsi, sem eigi er réttmætt að lögleiða, nema brýna alþjóðar-nauðsyn beri til. En það er það sem mér virðist vera hér. Bölið, sem af áfengisnautninni leiðir, er svo mikið — ekki fjármunalega að eins; það met eg minst, heldur — siðferðislega og heilbrigðislega. Ef bölið kæmi að eins fram á þeim, sem neytir áfengis í óhófi, væri ekki réttmætt að lögleiða aðflutningsbann. En bölið bitnar oft hvað mest á öðrum saklausum; það t. d. spillir ekki að eins heilsu neytandans og styttir líf hans, en það eitrar afkvæmin, úrkynjar kynslóðina.

Þetta, sem eg sé fyrir augum og þekki, er sú ástæða, sem kemur mér til að greiða atkv. með þessum ófrelsislögum, þessu frelsishafti. Mér rennur til rifja bölið, og eg vil vinna til að styðja að frelsishafti, til að geta upprætt það. Sú ein ástæða getur fengið mig til þessa.

Eg sagði, að eg greiddi atkv. með frumv. með hálfum hug. Það kemur af því, eins og sagði, að eg er hálf-smeikur við, að málið sé of snemma á ferðinni. Þjóðin hefði helzt þurft að greiða því miklu eindregnara fylgi, til þess að henni væri fulltreystandi til að þola lögin og framfylgja þeim. En í þeirri von, að þjóðin reynist þessu vaxin, greiði eg málinu atkvæði. Reynist ekki svo, þá er auðvelt að nema þau aftur úr gildi, þó eg vildi óska, að ekki þyrfti að því að reka; því að það mundi seinka því mjög, að takmarkinu verði náð, og hefði þá verið betra, að fara ekki svo brátt á stað.

1. breyt.till. háttv. l. þm. Rvk. (J. Þ.) get eg ekki aðhylst. Væri slíkt vítalaust, þá væri asninn leiddur inn í herbúðirnar. Þá er 2. breyt.till., er eg get vel aðhylst; hún fer fram á að þjóðin sé látin skera úr þessu aftur. Ef þjóðin er eindregin á þessu máli, þá sýnir hún það með enn meira fylgi, og þá væri eg og fleiri óhræddari við málið. ótti minn sprettur að eins af því, að eg vil málinu vel — vil að það nýtist til frambúðar.

Ef atkvæðamagnið með bannlögunum eykst talsvert við það sem var nú við kosningarnar, þá sýnir þjóðin betur að hún sé þessu vaxin.

Að leggja þá gjaldabyrði, er af þessu leiðir, á þjóðina alment, er því að eins réttmætt, að bannið sé samkvæmt vilja meiri hluta allrar þjóðarinnar. En í haust var með málinu að eins minni hluti allra kjósenda, þótt ? þeirra, er atkvæði greiddu, fylgdu því. Þeir, sem alls ekki greiddu atkvæði, virðast ekki hafa haft mikinn áhuga á málinu.

Eg fulltreysti því, að fylgjendur bannsins reyndust fleiri í annað sinn. Og ekki óttast eg, að hætt sé við, að rök andmælenda veiki fylgið. En þau mundu væntanlega bæta röksemdir vor bannlagamanna; annars eru rök vor fánýt, ef svo fer ekki.

Rökin verða betri, þegar þau eiga að etja við gagnrök annara, og þjóðin stendur á betri grundvelli, ef málið yrði rætt frá tveim hliðum. Til þessa hefir það að eins verið rætt frá annari hlið. Ef vel á að fara, þarf þetta mál að vera stutt með réttum rökum. Eitt meðal annars hefir vakað fyrir frsm. meiri hl. (B. Þ.), sem eg kann miður, það eru dæmi, sem hann hermir frá öðrum þjóðum, en eiga við engin rök að styðjast. Aðflutningsbann er als ekki til hjá neinni annari þjóð. En það væri skrítið, ef ekkert getur heitið réttmætt nema það sem aðrar þjóðir hafa gert á undan. Ef engin þjóð vildi ganga á undan öðrum þjóðum með neitt nýtt, þá yrði aldrei neitt nýmæli lögleitt í heiminum. Ekkert er á móti því, að við göngum á undan með góðu eftirdæmi. Við erum fáir og smáir, lítil þjóð og afskekt, og eigum við því hægri aðstöðu að ýmsu leyti. Við höfum fyrstir allra bannað innflutning ósútaðra húða, til að bjarga nautgripum og hrossum frá miltisbrandi. Er ekki mannlegt líf og velferð meira virði en nokkrir nautgripir? Mig er ekki að hrekja frá því, að greiða atkvæði með þessu þarfamáli; eg hefi áður tekið það fram og endurtek það nú.

En hamingjan forði mér frá röksemdaleiðslu sumra þeirra háttv. þm., sem eins og eg fylgja þessu máli.

Þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) lét það mikið klingja hvað eitrað alkóhol væri. Eitur og eitur getur nú verið sitt hvað. Er nokkurt strá á jörðinni án alkóhols? Nei, ekkert einasta, og fáar matartegundir eru algerlega án þess. Það er síður en svo að það þurfi að forðast »eitur« í mat. Mörg ljúffeng og holl fæða inniheldur einatt eitur, stundum eigi all-lítið, og margir nytsamir hlutir eru meira og minna »eitraðir«. Það er alt undir því komið, hvað stór skamtur er tekinn af eitri; margt »eitur« er holt og gott. Í brúðkaupinu í Kana er sagt að vatni hafi verið breytt í vín. 2. þm. Rvk. (M. Bl.) er nú sem stendur sjúkur. Eg veit ekki hvað að honum gengur; hann er hér staddur og getur sagt til; en hafi honum verið ilt í maganum, þá hefði honum ef til vill verið löngu batnað, ef hann hefði fylgt læknisráði postulans Páls, sem hann gaf Tímoteusi, að neyta dálítils víns fyrir magans sakir (1. Tím. 5,23). Hófleg nautn víns getur verið heilsusamsamleg, líkamlega holl, og Salómon segir, að vín, drukkið í hófi, hressi mannsins anda. Mundu nú guðsmennirnir hér í deildinni í fullri alvöru vilja tala um eiturbyrlarann í Kana? Eða vilja þeir bera Páli postula á brýn, að hann hafi verið að gera Tímóteus að hófdrykkjumanni, sem þeir segja sé nú enn skaðlegra en að vera ofdrykkjumaður?

Nei, en því eru þeir þá að kalla vínið, þá saklausu og hollu og góðu guðs gjöf, eitur?

Engra slíkra öfga eða ósanninda þarf með til að réttlæta útrýming áfengisins. Því á að útrýma, — ekki fyrir það, að það sé í sjálfu sér neitt ilt eða skaðvænt, heldur af því að mennirnir reynast enn yfirleitt svo mikil börn, að þeir eru fáir, sem kunna að nota það rétt, en hinir svo margir, sem geta ekki látið vera að nota það rangt, ekki sjálfum sér að eins, heldur kynslóðinni, þjóðinni til stórtjóns, og af því að engin leið hefir enn reynst trygg til að afstýra vanbrúkuninni.

Fyrir þessa sök greiði eg atkvæði með frumvarpinu, en als ekki af þeim ástæðum, er framsm. (B. Þ.) hefir haldið fram.