30.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (1510)

16. mál, aðflutningsbann

Jón Jónsson (N.-Múl.):

Eg get verið stuttorður, en þar sem háttv. framsm. gaf í skyn, að eg myndi vera innblásinn af ýmsum mönnum, þá vil eg benda á það, að það hefði einmitt verið ástæða til, að eg hefði orðið innblásinn af hans hendi, þótt eg hafi samt ekki orðið það. Hann vildi sanna mál sitt með því að lesa upp bréf til stórstúkunnar. Það var nú raunar ekki mikið á því að græða, enda oft búið að minna mig á þetta. Eg svaraði áðurgreindum spurningum á þá leið, að eg væri í rauninni mótfallinn banni, en myndi þó beygja mig fyrir skýlausum meirihluta (?) þjóðarinnar. Ef eg hefði nú viljað hengja hatt minn á þessi orð, þá gæti eg afsakað mig með því, að ? hlutar kjósenda hefðu ekki greitt því atkvæði, og því síður öll þjóðin. En nú vil eg eigi fara þessa leið.

Eg get sagt það hreinskilnislega, að eg skrifaði undir skjalið í fljótræði í sumar — á ferðalagi — en hefi síðar sannfærst um, að þetta mál sé ekki tímabært enn þá. Eg var í rauninni móti því, þótt eg skrifaði undir skjalið, að eg mundi beygja mig fyrir vissum meiri hluta.

Þar sem háttv. framsm. (B. Þ.) sagði, að eg hefði skift um skoðun, þá vil eg geta þess, að hann hefir sjálfur gert það hér á þingi — og það af verri hvötum. (Björn Þorláksson: Eg skora á hinn háttv. þm. að tilgreina málið). Það er fljótsagt. Það var í Eiðaskólamálinu.