30.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (1511)

16. mál, aðflutningsbann

Jón Þorkelsson:

Eg get ekki verið hinum háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) samdóma um það, að ekkert hafi verið nýtt í ræðu hins háttv. þm. Snæf. (S. G.), því að það var þó alveg glænýtt, er hann sagði, að tillaga mín væri sprottin af undirhyggju og óheilindum. Eg átti ekki von á þessu frá slíkum manni. En þetta sýnir, að sá »versti« er enn þá ekki iðjulaus, þar sem honum hefir tekist að blinda þannig augu guðs útvalda.

Tillaga mín miðar eingöngu að því að bæta frumv., svo að það geti orðið þjóðinni þolanlegra og, ef verða má, kærara en annars. Það hefir komið fram hér, að þetta mætti gera við 3. umr., en hvers vegna má ekki bæta frumv. nú við 2. umr.?

Það hefir verið sagt hér sitt af hverju um þetta mál, en eg hirði þó ekki að fara frekar út í það. En eg gat ekki orða bundist, þegar eg heyrði hinar þungu skriftir hins virðulega skriftaföður míns og sessunauts, hins háttv. þm. Snæf. (S. G.).

Eg vil leyfa mér að gera stutta aths., áður en gengið er til atkv. Eg hefi heyrt á sumum meiri-hlutamönnum, að þeim þætti þær breyt.till., sem eg hefi farið fram á, of þungbærar fyrir málið. Eg skal geta þess, að þótt breyt.till mínar nái ekki fram að ganga að þessu sinni, þá hefi eg ekkert á móti því, að við 3. umr. kæmu fram breyt.till. til linkindar, svo hægt væri að miðla málum á þann hátt, að flestir mættu við hlíta, og eg vona að meiri hlutinn orki þar als til, að svo fari, ef hann vill ekki, að hin afarströngu ákvæði frumv. standi málinu fyrir þrifum.