15.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (1513)

16. mál, aðflutningsbann

Framsögumaður meiri hlutans (Björn Þorláksson):

Eg stend upp til þess að tala í þessu máli fyrir hönd meira hluta nefndarinnar, og vil gera grein fyrir allmörgum breyt.till., sem gerðar

hafa verið við þetta frumv. eftir 2. umr. þess hér í deildinni.

Eg tek það fram, að meiri hluti nefndarinnar hefir starfað með öllu út af fyrir sig; nefndin klofnaði sem kunnugt er, og hafa hinir hlutar hennar farið alt aðra leið, svo að samvinna gat ekki átt sér stað, enda var það eðlilegt, þar sem meiri hlutinn vildi hafa málið fram, en hinir hlutarnir vitanlega vildu tortíma því.

Þá vil eg minna á það, að í breyt.till. þeirri, er síðast hefir komið fram á þskj. 177 er dálítil ósamkvæmni. Þar stendur »við bannlög«, en á að vera »aðflutningsbannlög«. Vona eg að háttv. þm. taki ekki hart á því. Háttv. þm. hafa nú öll skjöl til að átta sig á þessu máli, þar sem eru breyt.till. frá meiri hluta nefndarinnar á þskj. 439, 458 og 477. Þetta alt þarf að bera saman.

Áður en eg tala frekar, vil eg fyrir hönd meiri hluta nefndarinnar skýra frá því, að nefndin tekur aftur breyt.-till. aftan við 7. gr. á þskj. 439. Þá er og tekin aftur 9. gr., er svo hljóðar í sama þingskjali: »Veitingamenn og vínsölumenn — — hér á landi«.

Enn eru teknar aftur breyt.till. við 9. gr. á þskj. 458.

Þá sný eg mér að breyt.till. Aðal-breyt.till. við 2. gr. fer fram á, að fella burtu ákvæðið um að heimildin sé bundin vissum skilyrðum. Ákvæðið um þetta er svo sett í 4. gr. Þar er og tekið fram, að áfengið sé gert óhæft til drykkjar, þegar það kemur hingað, með aðstoð efnafræðings landsins.

Þá er ætlast til, að auk lyfsafa, er hafi heimild til að fá áfengi, sé bætt við læknum út um landið, svo og kaþólskum prestum, Þessu ákvæði var við bætt á síðustu stundu, og var það fyrir tilmæli kaþólsku prestanna, því að þeir héldu því fram, að ef þeim væri synjað um þessa heimild, þá væri það sama sem að gera þá landræka héðan. Nefndin leit svo á, að réttast væri að verða við þessum tilmælum þeirra, enda væri það með öllu hættulaust, þar sem þeir fengju vínið vitanlega gegnum umsjónarmanninn.

Mönnum virðist þetta nú ef til vill vera óréttmætt og ósanngjarnt, að heimila ekki einnig íslenzkum prestum þetta. En biskupinn hefir nýlega lýst yfir því, meðal annars í »Nýju Kirkjublaði«, að hann væri því hlyntur, að prestunum væri ekki veitt þessi heimild. Hann bjóst við, að lögin myndu verða brotin, og þá ef til vill vekja tortrygni og grun gegn prestum landsins.

Við 3. gr. er það að segja, að síðasti liður hennar verður við breyt.till. skýrara orðaður og fyllri; og þykir tilhlýðilegt, að umsjónarmaður fái þóknun fyrir að gera áfengið ófært til drykkjar.

Við 4. gr. eru, auk þess er áður er tekið fram, að eins gerðar smábreytingar. Þar sem sá er pantar áfengið verður að láta borgunina fylgja pöntuninni, þá verður hann nú einnig að láta borgun fylgja fyrir það, að áfengið er gert ófært til drykkjar.

Í enda fyrra liðs 4. gr. er því bætt við, að pantandi áfengis skuli einnig borga kostnað við blöndunina. Síðari liður sömu greinar er orðaður af nýju og verður fyllri og gleggri.

Þá er fresturinn, er pantandi hefir til að ná til sín áfengi frá umsjónarmanni, lengdur úr 6 mánuðum upp í 12.

Í frumv. var það samþ. við 2. umr. að áfenginu skyldi helt niður, en þessu hefir nú verið breytt þannig, að í stað þess verði það gert upptækt, og er þá ætlast til þess, að það verði gert ófært til drykkjar og að því búnu selt til ágóða fyrir landssjóð. Í sambandi við þetta má geta þess, að óumflýjanlegt virðist vera, að landsstjórnin gefi út reglugerð um þetta ákvæði frumv. og fleiri. Þessu er þannig breytt alstaðar í frumv. Landssjóður getur því gert sér verð úr hinu upptekna áfengi, án þess að af því leiði drykkjuskapur.

Við 5. gr. hefir slæðst inn meiningarvilla, af athugaleysi við síðustu atkv.gr. og er hún nú löguð.

6. gr. er hér orðuð upp af nýju. — Aðalbreytingin er sú, að í 1. lið er talað um áfengi til umsjónarmanns eða frá honum. Í 2. lið er talað um áfengi, er haft er til skipsforða og sömu ákvæði látin gilda, hvort eigandi er innanlands eða erlendis.

Eg vona að breytingarnar við 8. gr. frumv. falli þeim vel í geð, er þykir sopinn góður og vilja gjarna hafa á pytlunni.

Þá er bætt við 9. gr. alveg nýjum lið um það, að ekki megi veita ný leyfi til vínsölu eða vínveitinga eða endurnýja eldri leyfi. Reyndar þarf ekki að búast við, að mörgum mundi til hugar koma, að sækja um slíkt leyfi, en hugsanlegt er og mögulegt, að einhver yrði til þess, eins og sjá má af dæmi því, er eg vil nefna.

Í kjördæminu, sem eg hefi þann heiður að vera þingmaður fyrir, var ekki fyrir löngu eða snemma á þessu ári gerð tilraun til að setja á stofn vínsölubúð, en eins og kunnugt er, var engin slík búð þar áður. Átti mönnum þó að vera kunnugt þar, að aðflutningsbannlagamálið yrði tekið fyrir á þessu þingi og ef til vill afgreitt.

Þá er bætt við nýrri grein um meðferð á áfengisbirgðum einstakra manna og vona eg, að menn skoði þær breytingar til bóta og kannist við að nefndin eða meiri hluti hennar hafi með þessum ákvæðum reynt til að taka svo mikið tillit til vilja og frelsis og réttar einstaklinganna, sem kostur var að gera, ef lögin áttu ekki að verða hið mesta kák og ómynd.

15. gr. er stórbreytt. Breytt hegningarákvæðum, teknar upp sektir í staðinn fyrir fangavist. Jafnframt er þar og á öðrum stað bætt við þeim nauðsynlegu ákvæðum, að fjárnám megi gera fyrir sektum á hendur skipstjóra í skipi hans.

Í 16. gr. eru sektir nokkuð lækkaðar.

Þá segir nú í 20. gr. að með brot á þessum lögum skuli að öðru leyti fara sem almenn lögreglumál, sakir þess, að í lögum þessum munu vera óvanaleg ákvæði um réttarfarsreglur, t. d. í 12., 13. og 14. gr.

17. gr. um lækna er orðuð að nýju, og er hún hér skýrari og gleggri, og enn fremur dregið úr hegningarákvæðum.

Í síðustu grein er felt úr ákvæðið, að lög nr. 26, frá 11/11 —1899 um sölu og veitingar áfengra drykkja sé úr gildi numin. Orsökin til þessa er sú, að í þessum lögum eru ýms ákvæði, sem verða að standa, þó aðflutningsbannlagafrumvarpið í þessari mynd verði að lögum.

Eg þykist þá hafa gert stuttlega grein fyrir helztu breyt.till. nefndarinnar og vona, að háttv. deild sjái, að þær miða allar til bóta. — Sektarákvæðin eru víða lækkuð og hegningar mildaðar að miklum mun.

Af þeim breyt.till., er standa á þgskj. 455 geta menn séð, að minni og minsti hlutinn hafa nú slegið sér saman og gengið í fóstbræðralag.

Aðalmergurinn í síðari breyt.tillögu þeirra er sá, að láta nýja atkvæðagr. fara fram um málið eða um frumv., eins og það yrði hér frá þinginu.

Eg verð algerlega að mótmæla því, að nú verði farið af nýju að greiða atkvæði um þetta mál, það væri að narra eða gabba alþingiskjósendur, ef upp á því væri tekið. Atkvæðagreiðslan í haust var sannarlega fullskýr.

Nei, meining þessara háttv. herra með tillögunni um nýja atkvæðagreiðslu er vitanlega engin önnur en sú, að reyna að tefja fyrir framgangi málsins, eða jafnvel að drepa það.