01.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1115 í B-deild Alþingistíðinda. (1521)

16. mál, aðflutningsbann

Sigurður Sigurðsson:

Eg vildi segja nokkur orð, áður en til atkv. kemur.

Frumv. hefir óneitanlega tekið nokkurum breytingum til batnaðar í háttv, Ed. En hins vegar hafa komist þar inn ákvæði, sem stórspilla því, að því er mér virðist. Eg ætla mér ekki að fara að rekja breytingarnar grein fyrir grein, en læt mér nægja að benda á eitt eða tvö atriði.

Stærsti gallinn er í mínum augum ákvæði 9. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að sölubann algert komist ekki á fyrr en 1915, en að öðru leyti komist aðflutningsbann á 1912. Eg held nú, ef vel er athugað, að þessi tvískifting hljóti að valda miður góðum afleiðingum, þegar á alt er litið. Meðal annars er seljendum með þessu gefið undir fótinn með að fara í kringum lögin. Eg er hræddur um, að þetta ákvæði freisti margra. Auk þess er þessi tímaskifting á aðflutningsbanni og sölubanni ruglingsleg og hætt við, að það valdi óánægju út á við. Mér hefði þótt betra og meiri samkvæmni í því, að fresta aðflutningsbanninu til 1915, svo hvorutveggja, bæði sölubann og aðflutningsbann, hefði orðið samferða og komið í framkvæmd á sama tíma. Annars hefði mátt fara miðlunarveg og láta hvorttveggja bannið koma í framkvæmd 1913.

Í sambandi við þetta vil eg minnast á ákvæði 9. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að þegar sölubannið er komið til framkvæmda, þá hafi vínsalar leyfi til að halda áfram að eiga vínföng og geyma þau hjá sér næstu 12 mánuðina. Með þessu er vínsöluleyfið óbeinlínis lengt um 12 mánuði eða 1 ár. Eg hygg að þessi undanþága reynist miður holl og verði til þess að viðhalda launverzlun með áfenga drykki, og er þá ver farið en heima setið.

H. háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) gerði fyrirspurn um það, hvort meiningin væri, að áfengið, sem eftir er í landinu að liðnum þessum 12 mán., samkvæmt 9. gr., yrði þá eign landssjóðs. Mér þykir þetta undarlegt ákvæði eins og honum. Það hefði verið hreinast og affarasælast, að bæði sölubannið og aðflutningsbannið hefði fylgst að og áfengi hefði verið gert upptækt alstaðar í landinu frá þeim degi eða þá innan einhvers ákveðins tíma frá því lögin kæmu í gildi, t. d. eftir 6 mánuði. Eftir þann tíma ætti og mætti enginn veita, gefa, né selja áfengi.

En þótt þessir gallar séu á frumv. þykir mér þó rétt að samþykkja það, eins og það liggur fyrir og mun eg því greiða atkv. með málinu.

En annars hefði eg fyrir mitt leyti talið það æskilegt, að málið hefði verið borið undir þjóðina á ný og á þann hátt, að allir, sem komnir eru til vits og ára, jafnt karlar og konur, hefðu fengið að greiða atkvæði um það. Það hefði verið trygging fyrir því, að lögin hefðu orðið vinsæl og betur haldin en ef til vill má búast við að verði nú. En þótt eg hefði kosið þetta helzt, þá er það ekki af því, að eg vilji málinu illa, enda er eg sannfærður um, að þessi aðferð hefði þvert á móti aukið því fylgi. Eg tek þetta að eins fram til þess að sýna afstöðu mína til málsins. En í rauninni kemur málið fyrir þjóðina á ný. Væntanlega munu menn á næstu þingmálafundum láta í ljósi skoðun sína á því, eins og skilið verður við það nú, og þá mun það koma fram, hvort menn vilja, að lögin haldi áfram, svo séð verði, hvernig þau reynast, eða þá að menn óska eftir að þeim verði breytt. Ákjósanlegast hefði auðvitað verið, að lögin hefðu verið svo úr garði gerð, að allur almenningur hefði getað sætt sig við þau.

Með þessu þykist eg þá hafa lýst afstöðu minni til málsins, og mun eg greiða atkvæði með frumv., þótt mér líki það ekki alskostar vel.

Áður en eg setst niður get eg ekki látið vera að minnast á félagsskap þann, er embættismenn hér í bæ og stúdentar, væntanlegir leiðtogar þjóðarinnar— hafa gert með sér og miðar að því að koma af stað hreyfingu í þá átt, að slá varnarhring um Bacchus gamla, til þess að geta notið hans sem lengst. Þetta þykir mér sorglegt tákn tímanna og bendir ekki á, að lærdómurinn geri menn bindindissama eða betri. Eg get ekki látið vera að minnast á þetta og finst það blátt áfram vera aðvörun til alþýðu manna um að vera á verði og gjalda varhuga við kenningum þessara manna, bæði í þessu efni og öðru.