01.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (1524)

16. mál, aðflutningsbann

Framsögumaður minni hlutans (Jón Jónsson, S-Múl.):

Mér fanst málið ekki græða mikið á ummælum háttv. framsm. (B. Þ.). Mest öll ræða hans gekk út á að tala um mig, og allmikið af því tók eg sem lof, þar sem hann var hámæltastur um stefnufestu mína ; eg tók það sem lof, þótt annað hefði máske verið hægt að ráða af svip hins hv. framsm. (B. Þ.) Því sem hann annars sagði um mig svara eg engu. Þess konar svara eg aldrei, það er föst regla mín, og tel mig mann að betri fyrir. Þetta hefir framsm. víst ekki vitað, því að annars hefði hann líklega ekki orðið eins margorður og eytt tíma þingsins til að tala um það, sem ekki kemur meira málinu við en það, hvernig maður eg sé.

Lögskýringar þm. Vestm. (J. M.) er eg ekki maður til að dæma um. En undarlegt þykir mér það að sjálfsagt skuli vera, eins og mér skildist hann halda fram, að 11. gr. upphefji ákvæði 7. gr, þar sem þær greinar rekast á. Því getur ekki eins vel 7. gr. upphafið þau ákvæði 11. gr,, sem hún kemur í beinan bága við.

Háttv. framsm. (B. Þ.) var að vara menn við þessari rökstuddu dagskrá, sem eg ætlaði að koma fram með. Hann þurfti ekkert að óttast í þeirri grein, Svo barnalegur er eg ekki. En eg benti honum og öðrum bannmönnum á þá aðferð, sem hina sæmilegustu og beztu til að enda þetta mál með.

Eg bendi sömuleiðis fylgismönnum málsins á það, að hægt væri enn að laga málið, með því að taka það út af dagskrá. Það gerði eg til þess að benda þeim á ráð til að bjarga málinu, án þess að með því yrði misboðið sæmd þingsins. Framsm. (B. Þ.) sagði áðan, að eg hefði kallað frumv. handaskömm. Það gerði eg ekki þá. En nú get eg gert það fyrir hann að nefna það réttu nafni handaskömm!