17.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (1529)

19. mál, lífsábyrgð sjómanna

Framsögumaður (Magnús Blöndahl):

Eins og háttv. deild er kunnugt, voru á alþingi 1903 samin lög um lífsábyrgð fyrir sjómenn, er stunda fiskiveiðar á þilskipum hér við land. Lög þessi voru þörf og góð, og hafa náð hylli sjómanna, að því leyti sem þau ná til, en samt sem áður hefir mönnum orðið það ljóst, að brýna nauðsyn beri til þess að líftryggja fleiri sjómenn en þá, er að eins stunda fiskiveiðar á þilskipum.

Á þessu er nú reynt að ráða bót með frumv. þessu, er hér liggur fyrir, þar sem líftryggingin á nú einnig að ná til allra sjómanna, er lögskráðir eru á íslenzk skip, hvort sem þau stunda fiskiveiðar, eru í förum meðfram ströndum landsins eða eru í förum landa milli.

Nokkur fleiri nýmæli eru í frumv., svo sem, að í stað vetrarvertíðar og vor- og sumarvertíðar í hinum eldri lögum, er tímatakmarkinu í þessu frv. skift í tvent, þ. e. frá 1. oktbr. til 30. apríl og 1. maí til 30. sept. Þá er einnig þýðingarmikið nýmæli í 6. gr. frumv., er kemur í veg fyrir það, að skuldheimtumenn hafi leyfi til að skerða styrk þann, er um ræðir í frumvarpinu.

Nefnd sú, er háttv. deild kaus til þess, að athuga frumv. þetta, hefir nú komið fram með álit sitt á þingskjali 216, og eins og nefndarálitið ber með sér, eru breyt.till. nefndarinnar aðallega orðabreytingar, er nefndin væntir, að fái góðan byr í deildinni.

Eg finn mér skylt að geta þess, að nokkru eftir að nefndarálit vort var prentað, bárust nefndinni nokkrar br.till, við frumv. frá yfirmanninum á »Islands Falk«, og fara þessar breyt.till. fram á það:

1. Að líftryggingin nái til allra sjómanna, er sjó stunda, hvort heldur er á þilskipum, opnum bátum eða mótorbátum.

2. Að gjaldið (premían) sé 15 aurar um vikuna fyrir allan tímann.

3. Að útgerðarmaður greiði að eins ? af gjaldinu á móts við sjómenn.

4. Að útborgun á styrknum sé 200 krónur 1. árið en 100 krónur 2. og 3. árið.

5. Að þar sem talað er um skráningarstjóra, komi: sýslumaður eða hreppstjóri.

Nefndin hefir nú ekki haft tækifæri til þess að taka þessar breyt.till. til nákvæmrar yfirvegunar, en mun að sjálfsögðu gera það, og þá koma fram með framhaldsnefndarálit við 2. eða 3. umr. málsins.

Eg skal svo ekki á þessu stigi málsins fara fleiri orðum um frumv. Vona Háttv. deild taki því vel, og vísi því til 2. umræðu.