12.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

6. mál, aðflutningsgjald

Framsögumaður (Steingrímur Jónsson):

Frv. hefir verið breytt í Nd., og eg get sagt, bæði fyrir mína hönd og nefndarinnar, að við álítum breytingarnar heldur til spillis en hitt. En þar sem frv. er mjög þýðingarmikið fyrir fjárhag landsins, lítur nefndin svo á, að ekki sé rétt að gera úr þessu kappsmál milli deildanna, og ræður því háttv. deild til að samþykkja breytingarnar í aðalatriðunum.

Eg get sparað mér að fara mörgum orðum um breytingar þær er Nd. hefir gert á frv., nefnilega þær, að telja skuli súrsaft með vínum og hækka þar af leiðandi toll á henni, og að greiða skuli gjald af öllu sem flyzt inn frá í dag. Í öllum aðalatriðum hefir nefndin fallist á þessar breytingar. Þó hafa tveir nefndarmenn skrifað undir með fyrirvara, af því við álítum það óheppilegt að láta lög verka áður en þau verða til. Þó er hér mikil bót frá því sem ákveðið var í frv., er það kom fyrst frá Nd., þar sem nú er miðað við þann dag, sem lögin eru afgreidd frá Alþingi. Er þá gert jafnt aðstöðu, eins og ef konungur væri hér, eða sú regla tekin upp, að slík lög væri staðfest pr. telegraf. Það er því mikill munur á þessu ákvæði og því, að lögin skyldu ganga í gildi 24. febrúar. Og eru reistar þær skorður við því hættulega ákvæði, að búast má við, að fordæmið verki ekki skaðlega eftir á.

Af þessum ástæðum get eg verið með breytingunum, og það því fremur sem það væri að mínu áliti mjög varhugavert að fella svo nauðsynlega bót á fjárhag landsins, sem hér er um að ræða.

En eg get samt sem áður ekki ráðið háttv. deild til að samþykkja síðustu grein frv. óbreytta. Það er óhjákvæmileg nauðsyn að gera orðabreytingar á henni. Fyrst segir í greininni: »Lög þessi öðlast gildi þegar í stað«, og síðar: »Þó skal greiða aðflutningsgjald . . . frá 12. marz 1909«. Síðari hluti greinarinnar er í mótsögn við fyrri hlutann, og fer í bága við þá meginreglu, sem öll tolllög hljóta að ganga út frá, að tollur sé fallinn í gjalddaga þegar skipið er kornið í höfn, og að kaupmenn eigi heimting á að borga tollinn strax. Hér er ekki um aðflutningsgjald að ræða, heldur birgðaskatt. Það er því góð breyting, sem nefndin leggur til að gerð verði (þgskj. 193), nefnilega, að greinilega sé tekið fram, að það sé aukagjald, sem borgast frá 12. marz, þar til lögin öðlast gildi. Eg skal geta þess, að tvær prentvillur hafa slæðst inn í breyt.tillöguna, nefnilega aðflutningsgjald fyrir aðflutningsgjald og aukagjöld fyrir aukagjald. (Ráðherra: Ártalið 1909 vantar á eftir 12. marz).

Eg treysti því, að meiri hlutinn geri ekki neina deilu út úr þessu frekar. Þessi breyting fer að eins fram á það, að gera lögin aðgengilegri að forminu til. Frá mínu sjónarmiði er ef til vill ekki ástæða til að búa undir fyrir næstu stjórn, en á hinn bóginn ber hvor deildin um sig ábyrgð á því, að lög þau, sem hún afgreiðir, séu fullkomlega aðgengileg að forminu til. Þetta frv. kom illa útbúið frá Nd., og því gerði nefndin þessar breytingar á því. Ræð eg svo háttv. deild til að samþykkja breyt.tillöguna með leiðrétting á umgetnum prentvillum.