13.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1139 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

20. mál, fræðsla barna

Framsögumaður (Hálfdan Guðjónsson):

Það má ekki minna vera en að hinum háttv. þm. Vestm. (J. M.) sé þökkuð hin snjalla ræða, er hann nú hélt til þess að svala sér á nefndaráálitinu. Hann komst svo prúðmannlega að orði, að ástæður meiri hluta nefndarinnar væru klúrar, klunnalegar, ósannar o. s. frv.

Eg vona nú, að hinn háttv. þm. fái ekki tilefni til að tala frekar um þetta. En ummælum hans leyfi eg mér að mótmæla — eg vísa þeim heim aftur og heimfæri þau upp á tölu hins hv. ræðumanns sjálfs.

Eg skal ekki leyna því, að eg hefi samið nefndarálitið og mun háttv. þm. því mest hafa sveigt að mér með orðum sínum.

En því verð eg að halda fram, að það er á rökum bygt, að þingið 1907 hafi ekki, eins og æskilegt hefði verið, tekið þjóðarviljann til greina. Það er lýðum ljóst, hvernig þingsaga þessara fræðslulaga er. Afdrif þeirra urðu ólík frá báðum deildunum; þegar þau komu frá Ed. voru þau í alt annari mynd; þá var ætlast til að þeim yrði skotið til álits þjóðarinnar. Og öllum munu nú kunnar undirtektir héraðsfunda, sýslufunda og þingmálafunda í þessu máli. Alstaðar var það rætt, og nálega alstaðar kvað við hið sama: að menn aðhyltust frv., eins og það kom frá Ed., en ekki Nd.

En hvernig fór svo? Jú, vilji þjóðarinnar var þar virtur að vettugi. Það var ekki látið sitja við það lagaform, sem kom frá Ed. og þjóðin hafði hallast að.

Þess vegna veit eg ekki, þegar farið er fram á að gefinn sé frestur til þess að mönnum veitist tími til að búa sig undir framkvæmd laganna í stað þess að sætta sig við valdboð, sem mótmælt hafði verið fyrir fram, hvar það getur ekki átt heima, að í nefndarálitinu sé komist klunnalega að orði, eða jafnvel ruddalega. Eg fæ ekki séð það, og háttv. ræðumaður hefir ekki og getur ekki tilfært eitt orð úr nefndarálitinu þeim sleggjudómi sínum til stuðnings.

Þótt hinn háttv. þm. Vestm. (J. M.) hafi reiðst þessu fast, þá hefir samt umsjónarmaður fræðslumálanna verið ánægður með það, sem nefndin hefir gert í þessu máli — og legg eg meira upp úr því en dómi hins háttv. þm.

Vænti eg þess fastlega, að deildin skili málinu af höndum sér með sömu atkv.tölu og það var samþ. með við 2. umr.