08.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

89. mál, varabiskup

Framsögumaður (Eggert Pálsson):

Mál þetta er að minni ætlun nægilega skýrt og útlistað í nefndarálitinu, og get eg því verið stuttorður um það nú. Nefnd sú, sem kosin var í málið hefir eiginlega klofnað í þrent, var að eins 3 manna nefnd, og gat því ekki meira klofnað. En þótt nefndin hafi klofnað svo mjög, er það þó að eins aukaatriði, sem nefndarmennina hefir greint á um. Um aðalatriðið, að fá tryggingu fyrir því að biskupsvígsla ávalt skuli fara fram hér á landi, var nefndin öll sammála, og nefndin tjáir stjórninni og biskupi þakkir fyrir, að stórt spor í þá átt var stigið við síðustu biskupsvígslu, og þá eigi sízt ráðherra fyrir það, að koma með frumv., sem ef það verður að lögum, gefur trygging fyrir, að biskupsvígslan skuli hér eftir alt af fara fram í landinu sjálfu. Mál þetta er þannig einn partur af sjálfstæðismálinu, og ætti því að verða vel tekið af öllum þeim, sem af heilum hug unna sjálfstæði lands og þjóðar. En til þess að þessu verði komið á, þurfa biskuparnir að vera tveir, biskup og vara-biskup. Það er sem sé almenn regla kirkjunnar, að biskup skuli vígjast af biskupi, svo að ef vér ekki hefðum neinn biskup hér til að vígja þann reglulega biskup yrði samkvæmt þeirri reglu, að sækja vígsluna til Danmerkur. Um þennan góða tilgang frumv. er þannig nefndin alveg sammála, en ágreiningurinn nær að eins til aukaatriðanna. Frumv. stjórnarinnar gerði ráð fyrir, að vara-biskup fengi 500 kr. í laun á ári, og get eg ekki séð að það sé ofmikið, þar sem um jafnveglega stöðu er að ræða. Þetta hafa h. meðnefndarmenn mínir ekki viljað fallast á, og hefir þó annar þeirra í rauninni farið miklu lengra, þar sem hann vill stofna tvö regluleg biskupsdæmi hér á landi. Hvað mig snertir þá get eg játað, að mér er það ekkert kappsmál, hvort vara-biskup er launaður eða ekki, en mér finst það þó æskilegt, að kirkjan gæti veitt þessi lítilfjörlegu laun, sem farið er fram á í frumv., eins og í viðurkenningarskyni einhverjum sinna mætustu og ágætustu kennimanna, því úr flokki þeirra yrði vara-biskup að sjálfsögðu tekinn. En eftir þeim sparnaðartón, sem heyrist af mörgum munni hér í deildinni, mun víst ofmikið þykja, að verja því fé kirkjunni til eflingar og vegsemdarauka.

Stjórnarfrumv. vill láta biskup þann sem vígir hinn reglulega biskup heita varabiskup, og í því liggur, að starf hans geti orðið meira en það eitt, að vígja biskup. Hann á þannig eftir nafninu að dæma ekki að eins að vígja presta í forföllum aðalbiskupsins, heldur líka gegna embætti hans að öðru leyti, þegar þess þyrfti með. En til þess yrði hann þá að vera búsettur nálægt biskupssetrinu, eða í námunda við Reykjavík. En þar sem tilgangurinn er sá, að aðalstarf þessa manns verður það, að vígja biskup, þegar þess þarf með, þá virðist svo sem betur mega fara að hann heiti »vígslubiskup« en ekki »varabiskup«,

Að því er snertir það ákvæði, að konungur veiti varabiskups- eða vígslubiskups embættið, þá liggur það í augum uppi, að orðið »embætti« á hér ekki við, ef tillaga þm. Snæf. (S. G.) verður samþykt, að varabiskup fái engin laun. Og fari svo, sem eg fyrir mitt leyti óska ekki eftir, þá verður við 2. umr. að breyta orðalagi greinarinnar í samhljóðun við það. Annars finn eg ekki ástæðu til á þessu stigi málsins, að fara fleirum orðum um þetta mál. Hvernig sem deildin kann að ráða fram úr ágreiningsatriðum vor nefndarmanna, vona eg að frumv. þetta verði svo búið frá þessu þingi, að vér hér eftir ekki þurfum að sækja biskupsvígsluna út yfir pollinn, ef fráfarandi biskup yrði ekki fær um að vígja eftirmann sinn.