12.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1163 í B-deild Alþingistíðinda. (1581)

21. mál, vígslubiskupar

Framsögumaður (Eggert Pálsson):

Frumv. þetta er nú orðið allkunnugt hér í deildinni, og við atkv.gr. síðast, kom það í ljós, að háttv. þingdeildarmenn hölluðust fremur að þeirri stefnunni, að skipaðir yrðu 2 vígslubiskupar í stað eins.

Meiri hluti nefndarinnar hefir því fyrir sitt leyti gefið eftir, að vígslubiskupar verði 2, með því að auðsætt er, að aðaltilgangi frumv., að biskupsvígsla geti alt af farið fram hér á landi, er ekki síður fyllilega náð með þeirri tilhögun.

En af þessu hefir svo leitt, að einn hluti nefndarinnar hefir, úr því að ætlast er til að vígslubiskupar séu 2, fallið frá launaákvæðinu, með því að óþarflega mikið mundi þykja, að þeir fengju sínar 500 kr. hvor árlega, þar sem hitt þótti ekki takandi í mál, að borga einum manni 500 kr. laun.

En til þess að laga frumv. samkvæmt þessu, þá hefir nefndin komið fram með breyt.till. (170), sem telja má líklegt, að deildin hafi ekkert á móti. — Aðrar breyt.till. hafa að vísu komið fram, en þær innibinda að mestu leyti hið sama og till. nefndarinnar, svo að eg lít svo á, að þær breyt.till. séu óþarfar, ef hin (170) verður samþykt. Annars mun flutnm. þeirra breyt.till. gera grein fyrir því, hvort þeir óska að halda þeim fram, eða taka þær aftur.

Að svo mæltu óska eg þess fyrir hönd nefndarinnar, að frumv. verði samþ. með breyt. þeim, er nefndin hefir stungið upp á, með því að þar með er markinu náð, og það varðar mestu í þessu efni.