15.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í B-deild Alþingistíðinda. (1598)

21. mál, vígslubiskupar

Jón Jónsson (N.-Múl.):

Þetta biskupamál er nú orðið nokkuð sögulegt hér á þinginu. Fyrst lagði stjórnin fyrir þingið frumv. um einn varabiskup. Var svo skipuð þriggja manna nefnd til að athuga það. Hún klofnaði. Meiri hlutinn lagði til að samþykkja stjórnarfrumv. með breytingum í praktiska átt. En minni hlutinn (J. Þ.) var á öðru máli. Hann gerði sér lítið fyrir og samdi nýtt frumv. um endurreisn Hólabiskupsdæmis. Skyldi drottins þjónn þess umdæmis hafa 4000 kr. að árslaunum. Enn fremur skyldu vera tveir vígslubiskupar sinn í hvoru biskupsdæmi. Háttv. þm. (J. Þ.) stóð nú víst einn uppi með aðalbiskupinn. En hann var nú ekki af baki dottinn fyrir því og fékk hana upp til atkvæða greinina um vígslubiskupana tvo og var hún samþykt. Bæði frumv. stjórnarinnar og þessa h. þm., voru á dagskrá sama daginn og var frumv. um 3 biskupana fyr á dagskránni. Gramdist minni hlutanum og fleirum að svona fór og töldu stj.frumv. ekki fallið, þótt svona færi, og tjáði deildin sig því samþykka með atkvæðagreiðslu. Og mér er grunur á, að sumir háttv. þm. hafi upphaflega greitt atkv. með því að hafa tvo vígslubiskupa af gletni til þess að hafa skemtan af að heyra orð og ástæður háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) fyrir máli sínu. En nú tókst honum með kænsku sinni að fá meiri hlutann á sitt mál til að tryggja því fylgi þingsins.

En eg veit að ýmsir þingmenn eru á móti því að hafa tvo vígslubiskupa. Þess vegna hefi eg leyft mér að koma fram með þessar breytingartill. Eg fæ ekki séð að nein minsta þörf sé á að hafa tvo vígslubiskupa. Tilgangur stjórnarfrumv. var sá, að biskup landsins þyrfti ekki að sækja vígslu til útlanda. Það er þjóðleg ástæða. En aðaltilgangur háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) er sá, að endurreisa hin fornu biskupsdæmi. En það er að mínu áliti misskilin þjóðrækni, tildur sem einkisvert er.

Engar raddir hafa komið frá þjóðinni um fjölgun biskupa, enda er biskupsembættið ekki svo erfitt, að létta þurfi störfum af biskupi landsins og það því síður, sem hann er fær í allan sjó. Þessi nýju vígslubiskupsembætti geta orðið vísir til launaðra embætta, auk þess sem vígslubiskuparnir mundu að ýmsu leyti verða til að létta störfum af biskupi landsins gegn reikningi, er þeir fengju borgaðan úr landssjóði og gæti það orðið laglegur skildingur. Hinir nýju vígslubiskupar yrðu líka að sjálfsögðu einhverjir aldraðir merkisprestar. Og falls er von af fornu tré. Þeim eru ætlaðar í frumv. 500 kr. í vígslukostnað og eg hefi ekki séð mér fært að breyta því. Ef tíð biskupaskifti yrðu, gæti þetta eitt dregið sig saman. Þetta er sama sem að kasta peningum í sjóinn. Eg vona því, að hin háttv. deild samþ. breyt.till. mínar, er gera ráð fyrir einum vígslubiskupi, því að ekki geri eg mér von um að frumv. verði felt.