15.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í B-deild Alþingistíðinda. (1599)

21. mál, vígslubiskupar

Framsögumaður (Eggert Pálsson):

Eins og frumv. það, sem hér liggur fyrir, ber ljóslega með sér, hefir háttv. Ed. breytt því að eins að forminu til, en efnið hefir ekkert raskast. Nefndin lítur líka svo á, að þessi formbreyting hafi verið til batnaðar, því eins og frumv. er nú framsett í 3 gr. er það einmitt lögulegra en það áður var, þegar það var innibundið í einni gr. Það sem frumv. áður hafði var vitanlega óviðkunnanlegt, eins og líka eðlilegt var, þar sem það var að eins ein grein slitin út með atkvæðagreiðslu úr sambandi annara greina úr öðru sérstöku frumv.

Viðvíkjandi því atriði, hvort hafa skuli tvo vígslubiskupa, eins og frumv. ætlast til, eða einn eins og breyt.till. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) fer fram á, þá er þegar áður hér í háttv. deild, að mínu áliti búið að ræða og gera út um það, svo það sýnist óþarfi að endurtaka þær umræður.

Það er ekki unt að komast að annari niðurstöðu, en hin háttv. deild hafi viljað hafa biskupana tvo, og samþ. það fyrirkomulag. En að halda því fram, að það hafi orðið svo fyrir gaman eða glens úr háttv. þm., sem hér eiga sæti, eins og háttv. þm. N.-Múl. (J. J.) gaf í skyn, virðist mér með öllu óviðeigandi og blátt áfram ósæmilegt. Að bera þingmönnum deildarinnar það á brýn, að þeir séu með glettur eða grín við atkvæðagr. í löggjafarmálum þjóðarinnar er hin mesta fjarstæða að mínu áliti, sem hugsuð verður, og mér er það ekki vel skiljanlegt, að nokkur háttv. þingm. geti tekið á móti slíkri aðdróttun sem góðri og gildri vöru; eg verð því að vera þeirrar skoðunar, að háttv. deild hafi með fyrri atkv.gr. ótvírætt látið það í ljósi, að hún aðhyltist fremur þá stefnuna, að hafa tvo vígslubiskupa en 1 og að hún muni enn hafa sömu skoðun á málinu og þess vegna hafna breyt.till. 1. þm. N.-Múl. (J. J.).

En að því er snertir breyt.till. frá h. 1. þm. Húnv. (H. G.) þá víkur henni talsvert öðruvísi við. Hann telur biskupana eiga og mega vera 2, en vill ekki hafa þá vígða biskupa. Þessi brt. hans stafar því án efa af þeirri skoðun, að vígslan sé með öllu ónauðsynleg og henni megi því sleppa. En þar erum við — eg og hann, þótt við séum stéttarbræður — algerlega á gagnstæðri skoðun. Eg lít svo á, að það þurfi að sjálfsögðu að hafa vígslubiskupana vígða, ef þeir eru annars hafðir til þess, að þeir geti framkvæmt það hlutverk, sem þeim er ætlað. Biskupsvígsla framkvæmd af þeim er að minni ætlun ekki fullkomlega gild, að kirkjunnar áliti, nema þeir sjálfir hafi hlotið biskupsvígslu. Eg hefi svo ekki meira um þetta að segja og læt því hér staðar numið að sinni.