15.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

21. mál, vígslubiskupar

Hálfdan Guðjónsson:

Eg ætla ekki að vera margorður, því það er óþarfi að vera að endurtaka það sama um afstöðu mína gagnvart þessu frumv. sem eg sagði, er það var síðast til umr. hér í deildinni og annað með tímann að gera. Þó get eg ekki látið hjá líða að geta þess, að vígslubiskupar þessir þurfa ekki að hafa sérstaka biskupsvígslu til þess að geta staðið í stöðu sinni á þann hátt, sem til er ætlast. Mér finst þeir eins geta framkvæmt vígslu fyrir það, en á þennan hátt sparast tvennar 500 kr. Þess vegna get eg ekki annað en haldið fast við þessa breyt.till. mína. Með henni er því tvennu rýmt úr frumv., sem er sérstaklega þyrnir í augum ýmsra manna, þ. e. hinni sérstöku biskupsvígslu og kostnaðinum, sem af henni leiðir. En frumv. sjálft heldur sér í aðaldráttunum fyrir því. Vænti eg því þess, að á þennan hátt sé flestum gert til hæfis og frumv. þannig bezt borgið Og það ætti þeim að vera kært, sem er það mest áhugamál, að frumv. þetta nái fram að ganga. En í þeirra tölu er eg ekki. Tel það þó meinlaust og gagnslítið, ef breyt.till. mín verður sþ.